<$BlogRSDUrl$>

31.10.05

Þessi skilaboð voru töluð inn á talhólfið mitt í gær (símtalið hlýtur að koma úr heimasímanum, sem er framsendur í gsm-inn minn)

"Komdu sæl Hjördís. Ég samhryggist yfir öllu. Þetta er Bergur Jónsson. Ég hefði gaman af því að fá að tala við þig. Þakka þér fyrir."

Hmm. Ég þekki engan Berg Jónsson og veit ekki meir. Krípí....

24.10.05

Jæja, áfram stelpur.

Get því miður ekki tekið þátt í baráttufundinum þar sem ég þarf að gæta að öllu líkamlegu álagi akkúrat þessa dagana. Lagði mitt fram í samstöðuna með því að skutla tveimur samstarfskonum mínum niður í bæ og svo sæki ég þær þegar allt er um garð gengið ef þær vilja komast aftur á skrifstofuna þá. Er líka að hugsa um að svara ekki skilaboðum í dag!

Ég var um það bil 45 mínútur að komast frá Efstaleitinu og niður á Rauðárárstíg, þannig að ef dæma má af umferðaröngþveitinu ætti þátttakan að vera góð.

Klemma er bara í góðu gengi. Blóðþrýstingurinn minn hefur hækkað (þess vegna þarf ég að gæta að líkamlegu álagi) en það ekkert til að gera sérstakt veður út af, a.m.k. enn sem komið er. Ég er því snarhætt við öll þrifplön og fæ bara útrás fyrir hreiðurgerðisáráttu með því að skrifa lista og skipuleggja hitt og þetta.

19.10.05

Já, ég fór í mæðraskoðun í gær og komst að því að ég þekki bara ekkert muninn á bossa og haus á Klementínu. Það sem ég hélt að væri bossi var haus. En ég get svo sem huggað mig við það að ljósmæðraneminn ruglaðist líka. Ljósmóðirin og neminn voru með þvílíkar aðfarir - tróðu fingrunum lengst inn í bumbu og tóku utan um hausinn á Klemmu og hristu hann! Halló!!!! Litla greyið. Allt í kennsluskyni auðvitað. En það hefði sennilega liðið yfir Magga ef hann hefði séð þetta. Þær spurðu mig hvort ég vildi prófa en ég þakkaði bara pent.

18.10.05

Nýjustu geisladiskarnir á heimilinu er Get Behind Me Satan með The White Stripes, og Van Lear Rose með Lorettu Lynn (pródúsent og útsetjari er Jack White). Sá fyrri er búinn að rúlla mikið heima og er meistaraverk. Sá seinni hefur nú bara fengið að rúlla í vinnunni, og það verður að segjast eins og er að kántrí er ekki alveg það sem steinliggur fyrir mér sem hlustanda. Á disknum er þó einn dúett með Jack White og Lorettu Lynn, Portland Oregon, og sá flutningur er meistaraverk. Góðar stundir.

17.10.05

Nú er Klementína orðin nógu stór til að ég finni mun á bossa og haus (held ég). Hún hefur snúið sér á haus og sett bossann undir naflann í þessi tvö skipti sem ég hef haldið að ég sé að finna fyrir bossanum. Hún er reyndar alltof lítil til að vera farin að skorða sig, en ég held að hún haldi þessari stellingu bara í smástund og breyti síðan strax aftur um stellingu. Hægri síðan á mér er til að mynda í uppáhaldi hjá henni til að skjóta hausnum út í. Ég náði að setja fingurna utan um hausinn á henni fyrir stuttu síðan, og Maggi greyið fríkaði út, honum fannst það svo óhugnanlegt. Hélt að ég myndi kremja hana.

15.10.05

Þetta er búinn að vera yndislegur en erfiður dagur. Ég er sennilega að fá einhvers konar hreiðurgerðisáráttu. Finn mjög sterka þörf fyrir að þrífa allt hátt og lágt. Í dag voru það eldhússkáparnir, 5 tíma session, hvorki meira né minna. Ég er farin að skipuleggja þrif á hinu og þessu fram tímann, fyrstu helgina í nóvember verður það þvottahúsið. Spennandi, ekki satt!! Ég er líka búin að vera að týna til alls konar hluti og losa okkur við þá, gamalt stell og þess háttar, og verð svaka glöð þegar ég uppgötva að ég komi dótinu sem Klemma þarf fyrir í skápum og skúffum. Jæja, ætla að búa til eftirrétt handa okkur - piparmyntuís, kókósbolla og jarðarber.

14.10.05

Ég hef nokkrum sinnum fengið spurningar um hvort ég hafi fengið æði fyrir einhverjum skrýtnum mat á meðgöngunni. Svarið er nei og ég kannast ekkert við svona kenndir, enda tek ég fjölvítamín og lýsi og skortir því ekkert. Ég borða vissulega meira af ávöxtum en áður, drekk meiri vökva og sérstaklega drekk ég meira af malti og appelsíni en áður, en nei, ég hef ekki fengið æði fyrir einu né neinu.

Ég fékk heldur enga morgunógleði. Ég missti matarlystina á 8. viku og fékk hana aftur á 20. viku. Þetta var svo sem ekkert sérstakt tímabil. Ég ældi tvisvar, einu sinni af geðshræringu. Mér finnst kryddaður matur jafn góður og áður.

Ég er ekki þreytt, ég er ekki með bjúg, ég hef ekki fitnað eða slitnað og mér finnst það ekkert mál að vera ólétt (kæri guð ekki láta mig upplifa allt framangreint að kenna mér lexíu, plís!). Ég þarf ekki að minnka við mig vinnu og ég get ekki ímyndað mér að ég þurfi þess, sitjandi á rassinum allan daginn og tiltölulega streitulaus eftir öll þessi ár í lögmennsku. Ég er ekki grjátgjörn, hef ekki fengið grindargliðnun og ég hef gaman af spörkunum og látunum í barninu. Ég er ekki komin með leið á því að ræða óléttuna og allt sem henni tengist, og pirra mig ekki á einu né neinu nema fólki sem skortir læknisfræðilega menntun en vill endilega koma því á framfæri við mig hvað ég verði að gera og hvað ég verði að láta vera að gera. Fyrir því hef ég engan tolerans og það er það eina sem plagar mig!!! Góðar stundir.

13.10.05



29 vikur! Þessi mynd er tekin í gær.

7.10.05

Þá er ég komin 28 vikur á leið. Á sunnudaginn verða komnir 6 og hálfur mánuðir. Heilsan er fín og ég hef bara endalaust gaman af því að vera ólétt.

Ég fór í Akurhænsnahittelsi heima hjá Helgu Hlín í gær. Hitti þar Úlfhildi Örnu, 3ja mánaða. Afskaplega falleg og lík mömmu sinni.

5.10.05

Jæja, þá er ég orðin 33 ára. Þetta er búinn að vera þvílíkt sætur afmælisdagur. Búin að fá margar góðar kveðjur, og meira að segja feiknarstóran vönd af bleikum liljum frá tengdó. Ég sagði óvart við einn samstarfsfélaga minn áðan að ég væri 23 ára í dag! Það var alveg óvart, ég var að hugsa um það á sama tíma og ég svaraði að ég hefði einmitt verið nýorðin 23 ára þegar við Maggi byrjuðum saman. En þetta svar vakti að vonum kátínu, enda svaraði ég í fyllstu einlægni.

Við Maggi stefnum á að fara eitthvað út að borða í kvöld, en annars verður þetta bara allt í rólegheitum.

Adios og hafið það gott í dag.

2.10.05

Jæja börnin góð. Í kvöld förum við á tónleika með Bach kór Oslóborgar ásamt Sinfóníuhljómsveit Oslóborgar. Sérstakur gestasöngvari er Sissel Kyrkjebö. Þetta eru sem sagt ekki tónleikar með henni per se, heldur tekur hún nokkur lög, vonandi sem flest.

Skruppum í Þjóðmenningarhúsið í gær, kíktum á handritin og skoðuðum vinningstillöguna að tónlistarhúsinu. Reyndar sáum við líka þá sem var dæmd úr leik í "þriggja liða úrslitum" og ég er ekki frá því að það hús hefði verið töluvert magnaðra en það sem verður reist. Einhvers konar rautt fjall.

Annars er helgin búin að vera mjög róleg hjá mér. Ég skrópaði á árshátíð hjá Magga-vinnu og lá heima í leti í staðinn. Klementína var alveg bandbrjáluð yfir þessum fjarvistum pabba síns og róaðist ekki fyrr en hann var búinn að spjalla heillengi við hana eftir að hann kom heim. Grínlaust þá var hún alveg að tapa sér í spörkum og ég veit ekki hverju þangað til ég fékk hann til að tala við hana.

1.10.05

Fékk heimsins flottustu afmælisgjöf í dag frá Magga - túrkísbláa óléttukápu og svarta óléttupeysu. Ligga lá.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?