<$BlogRSDUrl$>

30.8.05

Fer til Stokkhólms á fimmtudaginn og verð í tvær nætur. Kemur sér ágætlega því að mig langaði einmitt til Stokkhólms, þó að kjöraðstæður væru reyndar frí og Maggi mér við hlið.

Eins og Maggi er búinn að segja frá á sínu bloggi fór ég í mæðraskoðun í morgun. Allt leit vel út. Hjartslátturinn í Klementínu er mældur með sérstöku tæki í hverri heimsókn. Tækið líkist hljóðnema sem tengist litlum hátalara. Hljóðneminn er sem sagt settur við bumbuna og svo er byrjað að leita. Fyrst var hljóðið eitthvað ógreinilegt og ljósan sagði að hún væri líklega á grúfu og spurði mig hvort hún væri sofandi. Við það fór litla að bylta sér og viti menn, sparkaði þessu væna sparki beint í hljóðnemann. Af þessu hlaust hinn mesti hávaði í tækinu, og eftir það heyrðist vel í hjartanu hennar. Ótrúlegt.

28.8.05

Fataskápstiltekt í dag. Endaði í 5 tíma maraþoni. Grínlaust. Fyrirmunað að skilja hvernig við förum að því að fylla skápana á nokkra mánaða fresti. Amk. er ég alltaf í sömu fötunum!

24.8.05

Allur texti sem ég skrifa þessa dagana er uppfullur af villum. Orð vantar og framsetningin er ekki eins og hún ætti að vera. Skyldu það vera óléttuáhrif? Klemma er búin að vera í miklu stuði síðastliðna daga, og hreyfingarnar eru að verða sterkari.

12.8.05



create your own visited country map

Já, við eigum sem sagt trébrúðkaup í dag. Eins og við komumst að þegar við útbjuggum boðskortið fyrir partýið sem ekki verður. Bakgrunnurinn var viðaræðar. Mjög smart!

Hér að neðan sjáið þið litlu prinsessuna okkar í prófíl.


11.8.05

Ann, amerísk miðaldra hjúkrunarkona, og vinkona okkar Magga, spurði Magga hvort við mættum virkilega skíra barnið Klementína eða hvort við værum bara að vera "legally blonde". Ég bara skil ekki brandarann!

Rétt svona til að hræða vini mína og aðra aðstandendur, þá tek ég það fram að við gætum svo sem skírt barnið Klementína. Nafnið var samþykkt af mannanafnanefnd í júlí. Klementína er kvenkynsmynd af Klement (Clement), sem er upprunnið úr latnesku nafni, Clementius. Merking Clementius er bljúgur eða miskunnsamur. Hó hó!

20 vikur!!! Og 5 ára brúðkaupsafmæli á morgun. Fyrir óléttu var planið að halda svaka partý, en áhugi á því datt upp fyrir, eða kannski gleymdist planið bara. Vitum ekkert hvað við eigum að gera í tilefni dagsins. Það verður amk. erfitt að gera eitthvað svipað og í fyrra, þegar við gistum í opnu tjaldi í Sahara. Sjá mynd á Magga bloggi.

10.8.05

Klemma stækkar með ógnarhraða þessa dagana. Amk. er bumban orðin ansi stór. Sem er bara fínt. 20 vikur á morgun.

8.8.05

Ég er ekki ein af þessum konum sem get haldið áfram að vera í mínum venjulegu fötum langt fram eftir meðgöngunni. Allt fatnaður með streng í mittið hefur verið afskaplega óþægilegur um nokkurra vikna skeið, og í raun gæti ég pakkað góðum hluta af neðri pörtunum mínum niður í kassa og hent inn í geymslu. Ég er sem sagt farin að klæðast meðgöngufatnaði og er hæst ánægð með það. Klementína er líklega jafn ánægð. Ég er líka löngu farin að finna fyrir hreyfingum hennar, og Maggi líka. Stundum er upplifunin eins og það sé dansiball í gangi inni í mér. Í nótt var þó frekar eins og sú stutta væri að æfa sig á bassatrommu, sem Maggi verður sennilega ánægður með að heyra.

5.8.05

Nú er það orðið opinbert: Við eigum von á stúlkubarni í desember. Ganninafn, eða vinnuheiti eins einhver sagði við Magga, er Klementína. Alveg satt. Gæluganninafn er Klemma. Það er saga á bak við þetta nafn, sem ég hef enga þörf fyrir að deila. En hún er samt til.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?