<$BlogRSDUrl$>

26.2.05

Úff, hvað fólk getur verið undarlegt.

Ég var að lesa grein í helgarblaði DV með fyrirsögninni "Hakkari brýst inn í tölvukerfi og hótar samtökum höfundarréttarhafa". Ég nenni ekki að rekja þessa vitleysu, en mér fannst fyndið þegar Deiliskona ein hélt því fram að ip tala væri eins og kennitala, sem er svona álíka vitlaust eins og segja að heimilsfang mitt sé eins og kennitala, en að því gefnu að það væri enginn sem vissi hverjir ættu heima hvar nema einhver sérstök þjónustufyrirtæki. Svo fannst mér það líka fyndið þegar vísar var til 3. mgr. 47. gr. fjarskiptalaga - sem bannar fjarskiptafyrirtækjum að gera hitt og þetta. Kemur málinu sem sagt ekkert við.

Jæja, ég breyti ekki öðru fólki og það þýðir ekki að ergja sig á því heldur.

Við erum búin að fara í tvo langa göngutúra síðan ég bloggaði síðast. Og vegna hreyfingarleysis síðan í janúar fann ég alveg fyrir þeim í kroppnum.

Lísa, mín kona, dottin út úr Idol. Mér fannst fyrri flutningurinn ekki góður hjá stúlkunni, en sá seinni var súper, það besta sem hefur gerst í þessari keppni síðan hún söng í diskóþættinum.

20.2.05

Fórum í langa gönguferð í úðanum í dag. Ég hef ekkert hreyft mig síðan ég fékk flensuskot í janúar, þannig að það var kominn tími á einhverja hreyfingu. Mér var farið að líða eins og ég væri geðdauft, seigfljótandi hlaup. Er búin að opna enn aðra bókina, Alias Grace. Byrjaði á henni í morgun og hún lofar bara góðu. Magnús ofurhetja liggur í sófanum að horfa á nýja uppáhaldsþáttinn sinn, 24. Bless.

12.2.05

Átti yndislega kvöldstund með góðum og stórum parti af familíunni í gærkveldi. Olga (mágkona mín) og Stjáni (bróðir minn) buðu til veislu heima hjá Önnu Kareni (bróðurdóttur mín) og Vidda (samb.m. Önnu Karenar). Aðrir veislugestir, fyrir utan mig og Magga, voru Solla (systir mín) og Gæi (samb.m. Sollu), Jóhann (sonur Sollu og Gæa), Rakel (bróðurdóttir mín), Davíð (samb. m. Rakelar), Helena (sonardóttir bróður míns og mágkonu), og auðvitað Tómas Hrói (sonur Önnu Karenar og Vidda). Brasilískar nautalundir, berneis og rauðvín. Mmmm. Það er samnefnari fyrir fjölskylduna mína að finnast kjöt gott og að kjötið sé best sem rauðast. Sumir eru þó full öfgakenndir í þessum málum. Mér varð til dæmis hálfóglatt þegar Jóhann (bráðum 12 ára) tók kjötfatið, lét blóðrauðan vökvann renna í glas, og drakk hann svo. Með röri! Frekar óhugnaleg sjón.

Annar samnefnari fyrir fjölskylduna eru veiðar og eini parturinn af kvöldinu sem var ekki frábær var þegar nánast allir misstu sig í heit skoðanaskipti um hvort það ætti að sleppa eða ekki sleppa, áhrif þess á verðlagningu veiðidaga, hvort væri náttúrulegra að veiða með flugu eða þá spóni eða maðki o.s.frv., o.s.frv. Ég vorkenndi Magga að sitja undir þessu, enda er hann óvanur þessari veiðidýrkun. Það segir sitt að þegar ég var krakki hélt ég að allir stunduðu veiðar á sumrin, svona á milli þess sem þeyst var um landið í rykmekki, klukkustundum saman, á leið í útilegu eða berjamó. Ég man jafn glögglega eftir mínum eigin spóni eins og ég man eftir stórmerkilegri grenjudúkku sem ég fékk eitthvert skiptið í afmælisgjöf. En að öðru leyti var þetta svona eins yndislegt og fjölskylduboð geta verið, fullt af væntumþykju og þægilegheitum.

7.2.05

Fríkað. Ég er að vinna og hlusta á eina af mínum uppáhaldssveitum Mars Volta. Nema hvað að ég er að hlusta í gegnum Yahoo Launch og það apparat er að spila Mars Volta of hratt. Alltof hratt. Hvað er í gangi? Þetta er mjög truflandi framsetning. Yahoo Launch klippir líka lögin með Sigur Rós á snarvitlausum stöðum, sem er ekki jafn truflandi, bara asnalegt.

6.2.05

Eiginmaður minn kom færandi hendi frá Akureyri með akureyrskar bolludagsbollur. Þvílík gleði. Þannig er nefnilega að bollur í Reykjavík eru vondar, en bollur á Akureyri góðar.

5.2.05

Ég er komin á sjónvarpsfyllerí. Búin að kaupa áskrift að Digital Ísland; Stöð 2, Stöð 2+ og Stöð 2 Bíó. "Stóri erlendi" fylgir frítt með í 6 vikur, þannig að nú get ég valið á milli ca. 40 stöðva.




This page is powered by Blogger. Isn't yours?