<$BlogRSDUrl$>

31.12.04

Nú árið er liðið í aldanna skaut...

Hvað hefur svo gerst á þessu ári, árinu 2004?

Við fórum til London í vetrarfrí og fórum þar á alls kyns fín og fræg veitingahús. Við fórum til Stokkhólms í júní og vorum gráti næst af hamingju þegar við komum út af aðalbrautarstöðinni og inn á Kungsgötuna. Tilfinningin sem við fengum var að við hefðum aldrei farið í burtu. Við fórum til Túnis, gistum í tjaldi í djúpt í Sahara eyðimörkinni og skiljum núna hvers vegna fólk getur dáið úr hita. Við gengum á nokkur fjöll, þar á meðal Heklu, og getum ekki beðið eftir að byrja aftur á fjallgöngum næsta sumar. Við fórum í margar útilegur, þar meðal á Seljavelli, sem hlýtur að vera með fallegustu stöðum á landinu. Ég fór til Oslóar og þrammaði um hálfa miðborgina með brotinn hæl. Hoppaði svo inn í rándýra skóbúð og fékk ekki að borga skóna að því að ég var ekki með VISA kortið á mér, og var bara sagt að borga þá síðar (sem ég gerði auðvitað!). Ég birti grein í Scandinavian Studies in Law, hélt fyrirlestra, og Maggi kláraði fullt af áföngum í MH. Ég datt ofan í White Stripes og Interpol og við erum orðin heltekin af Alias þáttunum. Loksins fauk ljóta eldhúsgardínan okkar og falleg kom í staðinn. Og loksins fór tölvugarmurinn úr svefnherberginu. Keren og Tom giftu sig og Halla og Brynjar líka. Erna og Sigfús trúlofuðu sig. Eva og Dís stungu af úr landi, og Heiða ákvað að gera slíkt hið sama. Við skreyttum almennilega fyrir jólin í fyrsta skipti. Við hlupum slatta og fórum kannski oftar en 100 sinnum í sund (og ég synti kannski 2 sinnum.) Við losuðum okkur við 5 ruslapoka af fötum og keyptum risa stóra kommóðu, sem enn stendur auð. Við pössuðum herramennina og máluðum svefnherbergið. Gummi kom í heimsókn til Íslands og tók upp fullt af efni í heimildarmynd. Didda og Dagný kláruðu kennaranám og fóru að kenna litlum börnum matreiðslu, smíðar, íþróttir og dönsku. Maggi spilaði á Airwaves. Frikki og Susana fluttu til London. Anna Karen fór ein til Kína í vinnuferð. Stjóni og Nína keyptu sér nýtt hús í Stokkhólmi. Óli og Stína fluttu heim. Linda fór í fullt starf jafnréttisfulltrúa HÍ og byrjaði í doktorsnámi. Rúna skipti um vinnu og Dídí keypti sér hús. Stjáni, Olga og Rakel fóru til Bandaríkjanna og keyptu fullt af dóti. Einhverjir snillingar skiptu um þakrennur á húsinu okkar og gengu ekki almennilega frá því... Við fengum okkur loksins nýtt sófaborð. Ég las fullt af skemmtilegum bókum. Kristó og Corinne eignaðist son og Tilman gifti sig. Meike fór að vinna í Ástralíu. Við duttum ofan í EM, en Maggi sveik málstaðinn og hélt með Ítalíu, eins og vanalega.

Svo gerðist líka fullt af öðrum hlutum sem við skulum halda utan vefheima, skemmtilegum og leiðinlegum, en miklu meira af skemmtilegum...

Ást og kossar,
Hjördís

30.12.04

Ég á eina vinkonu frá Sri Lanka. Hún býr í Stokkhólmi og ég átti svo sem ekki von á því að hún væri á Sri Lanka núna eða hefði sjálf lent í hamförunum. Ég skrifaði henni póst og sagðist vonast til þess að það væru allir hennar heilir. Ég fékk ekkert svar í 3 daga og var orðið frekar órótt, enda ólíkt henni að svara ekki strax. Fékk svo loksins póst í dag, þá var hún að koma heim frá Sri Lanka, og sagði allt vera í lagi.

Finnst annars merkilegt að Svíar á flóðasvæðunum eru hvattir til að drífa sig heim, ekki bara þeir sem liggja sjúkrahúsum og skapa þannig álag á heilbrigðiskerfin, heldur allir, og Þjóðverjar sækja sitt fólk og flytja heim sjálfir. En Íslendingarnir. Nei, þeir ætla sko bara að klára sitt frí!

Ég er búin að lesa Belladonnaskjalið þessi jól. Súper afþreying. Er byrjuð á Kleifarvatni, og líst ágætlega á. Næst verður það Ólöf eskimói, og svo Barn að eilífu.

Ég er búin að hlusta mikið á Antics með Interpol. Mjög ánægð með þann disk. Fengum okkur Mugison í stað Ragnheiðar Gröndal, en eigum eftir að hlusta almennilega á hann.


29.12.04

Eyðum áramótunum með Önnu Kareni, Vidda, Tómasi, Rakel og Davíð. Fyrir þá sem ekki vita þá eru Anna Karen og Rakel frænkulummur mínar, Viddi og Davíð frænkulummumakar, og Tómas snillingur.

Nú stefnir í að við förum til Köben í þriggja ferð í apríl og til Stokkhólms í júní. Mikið gaman! Geng síðan með þann draum í maganum að fara til Himalayafjallanna í sumarfrí, með Kuoni.

Tek undir það með einum bloggara að það er kreiiiisí að á Bifröst sé prófessor í lögfræði sem ekki er lögfræðingur...

Þessi óborganlega reynslusaga er á bloggsíðu Heimsborgara:

"Ég er mjög iðulega stoppaður í tollinum í Leifstöð. Hvergi annars staðar í heiminum hefur tollgæslan stoppað mig. Ég hef heyrt um marga Íslendinga sem aldrei eru stoppaðir og smygla alltaf einhverju. Ég hef aldrei smyglað neinu, ekki einu sinni komið með sígó og ef ég hef komið með vín hefur það einungis verið léttvínsflaska. Ég er búinn að prófa margar leiðir og veit ekki hvað ég geri rangt, kannski einmitt það - að vera alltaf að reyna nýjar leiðir.

Nýjasta leiðin mín var að ég stillti mér upp með kerruna mína og horfi beint fram í tollhliðið, beið eftir að allir færu og gatan væri greið. Svo gaf ég bara vel í. Hljóp í átt að tollgæslunni, ætlaði að komast í gegn, var alveg til í smá vesen. Tollgæslan var snögg að átta sig, maðurinn stökk fyrir mig og ég keyrði vagninn létt í annan sköflunginn hans. Hann skoðaði allt sem ég hafði, meira að segja það sem ég verslaði í fríhöfninni. Honum var ekki skemmt þegar hann fann ekkert. Það eina sem ég hafði komið með til landsins voru sápur og jólagjafir, hann tók meira að segja utan af einni til þess að hefna sín á mér. Ég [lái] honum það ekki."

27.12.04

Hó hó hó!

Erum komin heil á höldnu til Reykjavíkur. Allt gekk vel fyrir norðan og ferðin var bara fín í alla staði. Frábært að lenda í nettu óveðri og hafa allt á kafi í snjó. Mamma lamma kom heim klukkan 4 á aðfangadag, í mesta óveðrinu. Þegar bílstjórinn rúllaði henni inn í húsið sást ekki í neitt nema augun á henni, það var hreinlega búið að pakka henni inn í hjólastólinn.

Fengum ótrúlegt magn af frábærum gjöfum, milljón bækur - skáldsögur, ævisögur, fjallahandbók og matreiðslubækur, geisladiska (þar á meðal Antics með Interpol - Interpol er í sehr miklu uppáhaldi hjá mér þessa dagana), áttavita, töskur, mynd af herramönnunum, konfekt, nuddtæki og nuddolíu, og svo fáum við heimilissíma bráðlega. Við erum forviða yfir þessu öllu saman.

Vinna vinna!

22.12.04

Bloggstífla!

14.12.04

Jólagjafakaup, jólagjafakaup.

Vorum að koma úr húsi Mammons og tókst bara bærilega að finna réttu gjafirnar. Ég hef undarlega gaman að því að kaupa jólagjafir. Þetta er útrás fyrir eitthvað, en hvað það er veit ég ekki.

Æi, nenni ekki að blogga, ætla bara að horfa á Innlit/útlit í staðinn.

13.12.04

Hejsan!

Hafði mjög gaman að því að lesa á bloggsíðu Herra Kjána að hann væri með ljótuna í dag, eftir alkahólneyslu helgarinnar. Var nefnilega á heljarinnar vinnu/jólagleði á föstudagskvöldið og húðin mín ákvað sjálf að fá ljótuna eftir jólagleðina. Líklega gerði hún það þó að fremur vegna þess að ég dirfðist að smyrja á hana meiki, en vegna alkahólneyslunnar sem fylgdi í kjölfar meiksmurningar.

Sá Eternal Sunshine of the Spotless Mind fyrir nokkrum vikum. Besta mynd sem ég hef séð um langa hríð, sennilega barasta frá því að ég sá Donnie Darko eða Rushmore.

4.12.04

Bloggidíblogg.

Litli, blái heimilissíminn okkar dó í dag. Ég er búinn að eiga þennan síma frá því að ég flutti til Reykjavíkur, 19, alveg að verða 20. Það er dálítið skrýtið að síminn hringir en við getum ekki svarað, spennandi... Hver ætli hafi verið að hringja núna o.s.frv.

Já, og svo uppgötvuðum við raka í einum vegg í íbúðinni. Ég er búin að lýsa rakablettinum fyrir guðmóður minni og fyrrverandi eiganda íbúðarinnar, Sollu bollu, og hún segir að stærðin bendi til að þetta sé stórmál. Gaman að því. Hvað ætli ég hafi lesið marga dóma og verið í mögum málum um raka, leka og allt þar á milli. Ég fékk þá flugu í höfuðið að líkast til væri ég búin að skapa mér lekakarma og þess vegna værum við að lenda í þessu veseni.

Já já, og svo ég fékk ég fyrstu jólagjöfina mína í dag. Ægilega flottan jólakjól frá Magga sem ég get notað í jólagleðina í vinnunni næstu helgi. Frábært!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?