<$BlogRSDUrl$>

20.11.04

Kl. 2 mæta til mín litlu herramennirnir að norðan, Birkir Leó og Elvar Orri. Foreldrar þeirra eru að fara á árshátíð í borginni og við fáum að passa. Planið er að fara í Húsdýragarðinn, sund, McDonald's og leigja svo mynd. Varaáætlunin er barnadagskrá í Ráðhúsinu, Hákarlasaga í bíó, KFC og leigja svo mynd. Þrautavaraáætlun er að leika sér í snjónum upp í Öskjuhlíð, búa til pizzu og...leigja svo mynd. Ef tími gefst til þá sjáum við Línu Langsokk á morgun. Það þýðir ekkert annað en að vera vel undirbúin.

14.11.04

Ég er komin með heiftarlegt ofnæmi fyrir orðinu nákvæmlega. Þegar ég heyri fólk svara einhverju með orðinu nákvæmlega og með áherslu þá gnísti ég tönnum. "Það er svo sniðugt að setja svona plastmöppur á gardínur." "Nákvæmlega" "Af hverju gat hann ekki bara hætt í starfinu" "Nákvæmlega". Ég hata líka orðið lukka. Óþolandi. Næst þegar einhver er heppinn þá ætla ég að setja að hann hafi verið grísinn. Grísinn er fínt orð, yfirmáta hallærislegt og alveg öruggt að visst fólk myndi aldrei láta sér það orð um munn fara. Og næst þegar ég er sammála einhverri fullyrðingu ætla ég að kinka kolli og steinhalda kjafti. Bless.

12.11.04

Gyðingar eiga máltæki: Mennirnir gera plön og þá hlær Guð. Það er vangefið að gera hjá mér. Bless.

6.11.04



Einbeiting

Ég er að jobba á laugardegi og er bara ánægð með það. Sem mér finnst reyndar undarlegt. Annars eigum við Maggi stefnumót við Dagnýju og Kristján kl. 6. Annað hvort verður þá brunað út í búð að kaupa eitthvað til að elda eða farið út að borða. D&K eru barnlaus þessa helgina og það á að nota tækifærið til skipulagslauss flandurs. Kannski kaupum við bara tilbúinn mat og spilum Kana fram á nótt. Ég sé alla vega fram á mikinn hlátur.




2.11.04

Síðustu daga hef ég verið að pestera veitingahús í bænum. Ég vil panta borð fyrir óvissan fjölda, í kringum 30 manns, en vil ekki panta matseðil fyrirfram. Hef alls staðar fengið fremur dræm viðbrögð, þangað til rétt í þessu, þegar ég hringdi í Kaffi Viktor. Ekkert vandamál og viðkomandi var umhugað að koma því á framfæri við mig að þetta yrði ekkert vandamál. Kaffi Viktor fær 8 prik fyrir viðskiptavit.

Las þvílíka vitleysu í Fréttablaðinu um helgina - steinaldargagnrýni á ÞKG. Hún er að vísu skáfrænka mín, en ég held að dómgreind mín sé nú heil fyrir það. Það skilur einmitt á milli stjórnmálamanna eins og hennar og þeirra sem BJ stendur að baki að hún gerir sér grein fyrir því að í dag hefur enginn stjórnmálamaður efni á því að setja girðingu á milli sín og "pöpulsins". Að gagnrýna samræður hennar við sótbrjálaða kennara er það sem er gagnrýnivert. Þetta eru jú umbjóðendur hennar, sem er kannski auðvelt að gleyma ef maður er af gamalgróinni valdafjölskyldu sem hefur sterk tengsl við stjórnmálaflokk. Það sem er meira en gagnrýnivert er að segja hennar ummæli heimskuleg, án þess svo mikið sem að rökstyðja hvað hafi verið heimskulegt við ummælin. Ég hef aldrei lesið það í fjölmiðlum að ummæli karlkyns ráðherra væru heimskuleg, ekki einu sinni þegar GÁ ræddi um konur og eldavélar, og er þá ekki hægt að setja ummælin á sama flokk.

Það var svo sem viðbúið að ÞKG fengi það einhvern tímann í bakið að vera ekki undirgefin og afsakandi slæðukerling sem bíður eftir fyrirmælum karlanna í flokknum. Það var líka viðbúið að gagnrýnin yrði með þessum hætti. Það sem Fréttablaðið og BJ áttuðu sig ekki er á að í dag sjá flestir í gegnum svona orðræðu.


1.11.04

Krakkar úr Leikskólanum Kjarrið, Garðabæ:

* Sjáðu, hvað þetta hjól er lítíð á mig.
* Mér er svo illt í maganum að ég verð að nota trefil.
* Mig langar til mömmu. Hún keyrði útfyrir framhjá áðan.
* Það er líka til jólasveinn sem heitir Rassskellir.
* Fyrst ætla ég að vera Battman, svo Superman og svo fer ég í nudd.
* Mér er svo illt í röddinni að ég get ekki farið út.
* Öxar við ána, skjótum upp kjána.
* Kiddi sagði: Hann Víglundur er svo þreyttur að hann missti hjartað. Þá sagði vinur hans: Og ég missti beinin.
* Þegar englarnir koma of seint til að sækja mann, þá verður maður draugur.
* Ef maður lemur engil í hausinn þá breytist hann í ryk.
* Fóstran spurði Kalla: Hvaða staf á afi þinn? Kalli svaraði: Hann á bara kross af því að hann var orðinn svo gamall.
* Mamma spurði strákinn sinn: Hvað fékkstu að borða í leikskólanum? Ég fékk kanínusykur. Hann átti við kanilsykur.
* Ugla sat á Kristi.
* Ég stækka svo mikið að fötin eru farin að minnka á mig.
* Siggi og hinir krakkarnir í leikskólanum voru að fara út að leika sér. Þá segir Siggi spekingslega: Maður getur alveg verið á eyrunum. Það er svo gott veður úti.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?