<$BlogRSDUrl$>

23.9.04

Það er ekki hægt að segja annað en að "sumir ónefndir" hafi reynt að kasta ryki í augu almennings síðustu daga.

Þetta kemur fram í frumvarpi til laga um dómstóla nr. 15/1998, um það ákvæði laganna sem mælir fyrir um umsögn Hæstaréttar:

"Samkvæmt 3. mgr. 5. gr. laga nr. 75/1973 ber dómsmálaráðherra að leita umsagnar Hæstaréttar um umsækjendur um dómaraembætti áður en það verður veitt. Hvorki er þar tilgreint nánar að hverju umsögnin á að lúta né mælt sérstaklega fyrir um gildi hennar eða áhrif. Í 4. mgr. 4. gr. frumvarpsins er lagt til að ákvæði um umsögn af þessum toga verði mun ítarlegra. Er þannig tekið fram að umsögn Hæstaréttar, sem aflað yrði um umsækjendur um dómaraembætti, eigi að fela í sér mat á hæfi og hæfni umsækjenda til að gegna því."

Það færi því gegn dómstólalögunum ef Hæstiréttur segði ekkert annað en að umsækjendur færu hæfir til að gegna embættinu - umsögnin verður að lúta líka að hæfni, og þá verður ekki öllum umsækjendum raðað á sama bekk, öfugt við það sem "sumir ónefndir" hafa reynt að halda fram í fjölmiðlum. Hæfni felur annað í sér en hæfi í skilningi laganna. Umsækjendur er annað hvort hæfir eða ekki hæfir, og ekkert þar á milli. Umsögn um hæfi, eins og það orð er notað í lögunum, er því um já eða nei. Umsögn um hæfni getur hins vegar ekki verið um já eða nei, enda engin þörf á að bæta þessu orði við í lagaákvæðið ef það væri meiningin. Um leið og mat er komið á hæfni umsækjenda verður ráðherra að skipa þann sem hefur mestu hæfnina, samkvæmt reglum stjórnsýsluréttar.



18.9.04

Hmm, hvæstilefni. Ég var búin að lofa að reyna að hvæsa ekki og verð að standa við það.

Hef tekið það súperrólega undanfarið, fór í saumó á fimmtudagskvöld og í brunch með Lindu í dag. Langar oft að geta dregið Lindu upp úr vasanum þegar jafnréttismál eru rætt í kringum mig. Og væri líka til að geta rætt málefni Palestínu og Ísrael á sömu nótum og hún ræðir um jafnréttismál. Hlustaði reyndar í sumarfríinu á bestu útlistun á málefnum Palestínu og Ísrael sem ég hef heyrt um ævina - í viðtali við Bill Clinton.

Seinni partinn hef ég notað í að liggja upp í sófa og lesa öll dagblöðin, DV, Fréttablaðið og Moggann. Ég er með kynnisáskrift á Mogganum þessar vikurnar, og mun alveg örugglega ekki kaupa áskrift. Eins og margir í kringum mig las ég Moggann frá því að ég lærði að lesa, á hverjum degi og spjaldanna á milli, svona alla vegar eftir að ég komst á unglingsaldurinn. Svo hætti Matthías og fjandinn varð laus. Hugsjónalausir húskarlar settust í stóla sem rassinn á þeim passaði ekki í og standardinn hríðféll. Fyrst og fremst varð stjórnmálaumfjöllunin óvenjulega hlutdræg og veik, og breytt nálgun á stjórnmálaumfjöllun smitaði með einhverjum undarlegum hætti allt blaðið (svörtu dálkarnir utan um blaðrið í JSG og HHG eru dæmigerðir fyrir þetta). Forráðamenn Moggans virðast halda að það dugi að veita þeim sem hafa andstæðar pólitískar skoðanir aðgang að dálksentimetrunum svo blaðið sinni skyldum sínum, en því fer fjarri. Svo er Mogginn líka orðinn leiðinlegur.

Mæli annars með Igby goes down...



17.9.04

Rómversk-kaþólska kirkjan búin að koma því til leiðar að Da Vinci lykilinn er bannaður í Líbanon, Sigríður Anna Þórðardóttir með Harald Johannessen sér til aðstoðar í Umhverfisráðuneytið. Hvað næst? Haraldur lætur Sigríði Önnu bjóða Tom DeLay í heimsókn til Íslands til að ræða jákvæð áhrif umhverfismengunar, og Rómversk-kaþólska kirkjan gefur út yfirlýsingu um að feministar séu illir. Nei, heyrðu þetta síðasta er búið að gerast!

10.9.04

Jæja, brúðkaup Kerenar og Tom var síðasta sunnudag. Veislan var haldin utandyra að kvöldi til, í þjóðgarði 5 mínútum norðan við Jerúsalem, maturinn var brasilískur, og mikil gleði. Ég er búin að fá myndir og spjalla lengi við hana, og ég er satt að segja nett miður mín að hafa ekki farið. Það á ekki að sleppa svona tækifærum...man það næst... arg...

8.9.04

Um að bil einu sinni á ári kemur það fyrir að ég gleymi að láta sjampó í hárið í morgunsturtunni. Það kom fyrir í morgun. Ég meika þetta alls ekki.

5.9.04

Bllehhh.

Las þessar bækur í sumarfríinu:

Tort Master eftir John Grisham (ágætis afþreying á sólbekknum)
A Prayer for Owen Meany eftir John Irving (snilld og á fyllilega heima á listanum yfir 50 bestu bandarísku bækurnar, sem var birtur í sumar í Fréttablaðinu)
Inside the Kingdom eftir Carmen Bin Laden (ævisaga fyrrum mágkonu Osama, styður ýmislegt sem sagt er í Farhenheit 9/11...sem eru ekki góðar fréttir...)
Boo.com eftir Gunnar Lindstedt (ágætis frásögn af þessu hneykslismáli, sumt sem hér kemur fram gæti átt við um Oz á einhverjum tímapunkti í sögu þess fyrirtækis)

Svo náði ég að byrja á The Anatomy of Fascism eftir Robert O. Paxton, sem ég er enn að lesa. Hún er frekar mikið torf, fræðileg greining á því hvað fasismi er og hvers vegna hann náði tökum á ítölsku og þýsku þjóðinni og hvernig fasisminn birtist í verki undir stjórnum Mussolini á Ítalíu og Hitlers í Þýskalandi. Ef ég hefði ekki þennan áhuga sem ég hef á málefninu frá barnæsku hefði ég lagt hana frá mér um leið og sumarfríinu lauk, þannig að ég veit ekki hvort ég get mælt með henni. Hmm, jú reyndar sem skyldulesningu fyrir alla sem telja það í lagi að sýna öfgahyggju að hvaða tagi sem er umburðarlyndi, og ulla á málamiðlanir. Óþol gagnvart málamiðlunum og andstaða við stjórnmál og stjórnmálamenn sem vinna að málamiðlunum var einmitt eitt að einkennum fasismans - því miður heyri ég eitthvað í þá áttina hjá ýmsum öfgahægrimönnum hér.




3.9.04

Við vorum mest á hótelinu eftir Sahara-ferðina, skruppum þó einn dag í stærsta bæinn á Djerba, Houmt Souk, og svo notuðum annan dag í bátsferð til eyjunnar Flamengo.

Alla vega. Á hótelinu kynntumst við snillingnum Jamil, sem ég hef áður sagt frá. Hann bauð okkur í 28 ár afmæli sitt, sem hann hélt upp á diskóteki. Það var bæði skemmtilegt og fáranlegt að vera á arabísku diskóteki, umkringdur ungu fólki sem hefði næstum því getað verið statt á Ibiza, með sandinn allt í kring. Bara það að finna diskótekið var brandari. Við tókum leigubíl upp að hótel Sofitel, sem tengist diskótekinu, og hittum þar fyrir vörð sem sagði okkur hvert við ættum að fara. Eftir langa leit innan hótelsvæðisins snerum við við og ætluðum að spyrja betur til vegar. Hittum þá vörðinn fyrir sem hafði farið af stað á eftir okkur til að athuga hvort við hefðum komist á leiðarenda. Vörðurinn labbaði svo með okkur heilmikla krókaleiðir að diskótekinu og alla leið inn. Þar var enginn, nema starfsmenn diskóteksins. Jamil hafði sagt við okkur að hann kæmi kortér yfir tólf, en við höfum verið svona hálf tólf á staðnum. Vörðurinn sagði okkur að fólk mynda koma eftir hálftíma til klukkutíma og sneri sér síðan að einhverjum kunningja sínum. Við ætluðum að kveðja hann og sögðum við hann að ætluðum ekki að bíða, heldur að kíkja á einhvern bar í millitíðinni. Það kom ekki annað til greina en að fylgja okkur, og aftur leiddi hann okkur í gegnum alls konar ranghala, í gegnum bakgarða og með fram ströndinni, þangað til við komum að flottasta útibar sem ég hef séð, á bak við Sofitel hótelið. Við vorum agndofa yfir þessum flottheitum - okkur hafði ekki dottið í hug að svona væri til á Djerba. Þarna sátum við og horfðum út á haf og á stjörnunar fram að diskótíma.

Framhald síðar...

This page is powered by Blogger. Isn't yours?