<$BlogRSDUrl$>

25.8.04

Jæja, þá erum við komin aftur frá Túnis. Ég ætlaði mér að birta myndir hér úr ferðinni en það verður að bíða.

Við hófum ferðina með 4 daga dvöl í Kaupmannahöfn. Við fórum á ítalska veitingastaðinn Era Ora, Konrad, Zyrup og einhverja fleiri, skruppum í Dyrehaven og löbbuðum um borgina. Vorum orðin ansi leið á Kaupmannahöfn undir rest og vorum fegin að komast í burtu þaðan.

10. ágúst lögðum við svo af stað til Túnis. Ferðin gekk fljótt og vel fyrir sig og við vorum komin seinni part dags á flugvöllinn í Djerba. Það fyrsta sem skall á okkur var hitinn og hvað allt var öðruvísi en í Evrópu. Hótelið reyndist vera fínt og með rosa loftkælingu. Við urðum fegin því seinna meir. Fyrsta kvöldið var lítið gert annað en að skoða hótelið og umhverfið í kring. Við fórum á veitingastað á hótelinu og hittum þar fyrir Jamil, einn af managerunum í salnum, sem við áttum eftir að kynnast betur síðar. Sömdum við hann um að fá að borga 30 dínara fyrir aðgang að kvöldmatarhlaðborði, gegn því að koma oft að borða. Hins vegar borðuðum við bara eins einhverjir idjótar fyrsta kvöldið, ekkert nema brauð og gulrætur, enda allt fremur framandi og skrýtið til að byrja með.

11. ágúst fórum við í hringferð um Djerba. Við komum við í ýmsum litlum bæjum og einnig í Hara Seghira sýnagógunni, sem er elsta sýnagógan í Norður-Afríku, og sýnagógur hafa staðið á staðnum frá 586 f.Kr. Sýnagógan á líka að geyma eitt af elstu gamla testamentum í heiminum, en við sáum það því miður ekki. Það er merkilegt að gyðingar og múslimar hafa nánast alla tíð lifa í sátt og samlyndi á Djerba. Hins vegar fluttu mikið af gyðingum burtu í stríðunum ´56 og ´67, og árið 2001 var gerð hryðjuverkaárás á sýnagóguna sem kostaði 17 þýska ferðamenn lífið.

Klukkan 6 að morgni 12. ágúst lögðum við svo af stað í tveggja daga ferð um Sahara, sem verður að teljast hápunktur ferðalagsins. Ferðin var mjög erfið og við veiktumst bæði í kjölfarið, en við erum mjög þakklát fyrir að hafa fengið þetta tækifæri til að sjá Sahara. Við ferðuðumst í rútu, á hestvögnum og á kameldýrum fyrri daginn, og komum við á mörgum stöðum í Suður-Túnis, vinjum, bæjum og þorpum bæði í vinjum og í eyðimörkinni.

Ótrúlegt en satt þá var farið fyrri daginn í hammam, sem er gufubað og nudd, í miðri eyðimörkinni. Ég treysti mér hins vegar ekki, enda var hitinn í sól þá ekki undir 55°C og ég var orðin fremur slöpp. Það var svo sem líka nóg gufubað fyrir mig að liggja í skugganum og svitna eins og gosbrunnur á meðan aðrir voru inni í hammaminu. Síðasta sprettinn að svefnstaðnum fórum við á kameldýrum. Sú ferð var farin um sólsetur, enda ekki hægt að ferðast að degi með þessum hætti að sumarlaginu. Við gistum svo í opnum tjöldum, 8 saman í hverju tjaldi. Um 4 um morguninn vorum við svo ræst í morgunmat og klukkutíma síðar fórum við sömu leið til baka á kameldýrunum á þann stað þar sem rútan beið okkar.

Seinni daginn skoðuðum gríðarstóra saltauðn og fórum í jeppum að skoða vatnsfall í Atlas fjöllunum, og heimsóttum berber fjölskyldu sem býr neðanjarðar. Við vorum svo komin til baka til Djerba um klukkan 10 um kvöldið, örmagna en ánægð.

Framhald síðar...

This page is powered by Blogger. Isn't yours?