<$BlogRSDUrl$>

30.7.04

Saga Palestínu

Ég get ekki talið skiptin sem ég hef heyrt menntað og upplýst fólk tala af hreinni fávisku um sögu Palestínu. Fólk heldur jafnvel að landið hafi verið undir yfirráðum Araba fram að fyrri heimsstyrjöld, sumir þar til 1948, og enn aðrir halda að Ísraelar hafi rekið Araba frá Ísrael við stofnun ríkisins. Birti þennan link hér, og lofa að reyna svo að hvæsa ekki næst þegar ég heyri fáviskuna vella upp úr annars góðu fólki..





Hmmm, tékkaði á heimasíðu Heilsugæslunnar, og komst að því að við ættum að fara í bólusetningu fyrir öllu milli himins og jarðar, nema kóleru. Þar sem ég vil síður drepast úr mænusótt, stífkrampa, lifrarbólgu A, rabies eða HBV er líklega best að gefa sér tíma í heimsókn á heilsugæsluna....

Skattmann ákvað að lemja mig í hausinn með 5 tonna stálbita. Ég verð að lifa með því og borga skattinn. Þetta eru slæmar fréttir. Góðu fréttirnar eru þær að ég er komin í 4 vikna sumarfrí.

Ef einhver veit hvort við þurfum einhverjar bólusetningar áður en við förum til Túnis er sá hinn sami beðinn um að láta mig vita hið snarasta.


29.7.04

20 stiga hiti og sól á Akureyri.... Rok og rigning í Reykjavík

27.7.04

Hvað er að gerast?  Ég hélt að ég væri að líða í rólegheitum inn í frí, en er nú skyndilega að drukkna í vinnu!  Voru það samantekin ráð hjá fólki út í bæ og út um lönd að bíða þar til einungis 4 dagar væru eftir í frí og kalla þá neyðarópi í einum kór.   Ætla nú samt að koma mér út af skrifstofunni bráðlega, droppa við á Austurlandahraðlestinni og snara mér heim...


26.7.04

Axel frændi minn er búinn að birta á heimasíðu sinni sögubrot um afa og ömmu, eftir frænku okkar Kristjönu Guðmundsdóttur, og drög að ættartölu.  Leyfi mér að birta sögubrotið hér:

Sögubrot eftir Kristjönu Guðmundsdóttur


25.7.04

...enduðum á að fara strax alla leið í Heydal, Mjóafirði, á litla ættarmótið.  Mjög fínt allt saman og aðallega að heimsækja þá staði sem hafa sérstaka merkingu fyrir fjölskylduna, eins og Ögur og Hjalla.  Við slepptum því að fara út í Vigur þetta skiptið og fórum heldur ekki að Botni.  Fórum hins vegar í sund í Reykjanesi, í stórmerkilega sundlaug þar sem var alltaf þakin grænu slími þegar ég var krakki.  Skrifa meira um ferðina síðar... Chao....  

23.7.04

Hvað er að gerast!  Ég er að fara í útilegu og það er allt á floti hérna!  Eins gott að það verði ekki svona blautt fyrir vestan, okkur skolar bara út á haf í nótt ef veðrið verður svipað þar.  Það væri ægilegt. 

Ég var að fjárfesta í svaka svefnpoka og það eru mikil gleðitíðindi, enda hafa ófáar næturnar orðið svefnlitlar undanfarin 4 ár í svefnpoka sem ekki er gerður fyrir íslenskar aðstæður.   Kannaði þessi mál loksins til hlítar í sumar og það er algert lágmark að þægindastigið sé -8° til að það sé bærilegt að sofa í svefnpokanum hér á Íslandi, og þá er ekki átt við dauðamarkið svokallaða ("extreme" á framleiðendamáli).  Framleiðendur eru með ýkjusýki og það þýðir ekkert að vera í svefnpoka með þægindastigi 0°.

21.7.04

Sá áhugaverða umræðu í Kastljósi um  Karolínu-málið frá Mannréttindadómstólnum. 

Annað mál sem er ekki síður mikilvægt hefur, að því að ég best veit, ekki fengið neina athygli hér á landi.   Nefnilega Bodil-málið frá Evrópudómstólnum. 

Bodil Lindqvist, sænsk kona, hafði sett upp persónulega heimasíðu.  Á heimasíðunni sagði hún frá öllu og engu, eins og gerist, en sagði líka frá því að manneskja sem tilheyrði sama kirkjusöfnuði og hún hefði fótbrotnað og væri frá vinnu vegna þess.  Einhver sagði við hana að þetta væru viðkvæmar persónuupplýsingar og hún hefði ekki haft heimild til að birta þær.  Bodil vildi ekki trúa þessu og fór í heimsókn til lögreglunnar.  Hún var sektuð.  Sænskur dómstóll leitaði eftir úrskurði Evrópudómstólsins um tiltekin atriði. 

Evrópudómstólinn benti á að það væri hlutverk aðildarríkja að skýra persónuverndartilskipunina með hliðsjón af tjáningarfrelsi, eins og það er verndað í 10. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu.  Einnig að vegna þess hversu víðtæk tilskipunin væri yrði að beita meðalhófi við túlkun hennar.  Ég veit ekki hver niðurstaðan var hjá sænska dómstólnum eftir að hann hafði fengið þessa niðurstöðu Evrópudómstólsins, s.s. að hann yrði að vega og meta persónuverndartilskipunina gagnvart tjáningarfrelsi.  Í niðurstöðu Evrópudómstólsins felst í það minnsta mikilvæg áminning um þýðingu tjáningarfrelsisins gagnvart persónuverndartilskipuninni. 

Það er einmitt tjáningarfrelsið sem svo oft gleymist í umræðu um einkalífsvernd og persónuupplýsingar.  Tjáningarfrelsið er verndað af stjórnarskrá og einkalífsvernd ryður því ekki burt, og enn síður persónuverndarlöggjöf.  Þess vegna þarf að skoða hvert tilvik, þegar haldið er fram að um brot á einkalífsvernd sé að ræða, og vega háttsemina á móti tjáningarfrelsinu.  Það er ekkert svart og hvítt þegar kemur að einkalífsvernd og hún er ekki yfirsterkari tjáningarfrelsinu.  Það er því full ástæða til að taka undir Séð&heyrt ritstjóranum og vara við því að Karolínudómurinn verði oftúlkaður. 


20.7.04

Hmmmm, var að muna eftir því að Magnús var búinn að lofa að elda einn nýjan rétt....
 
Erum milli steins og sleggju með ferð í Mjóafjörð við Ísafjarðardjúp um næstu helgi...  Erfitt..... Lúxuslíf....

18.7.04

Fórum á Seljavelli á fös.  Yndislegur staður og ótrúleg náttúrufegurð allan hringinn.  Ákváðum að fara á Seljavelli einu sinni á ári hér eftir.  Á lau hoppuðum við yfir Eyjafjallajökullinn og gistum í bústað í Fljótshlíðinni með Dagnýju, Kristjáni og Birtu Huld.  Flott útsýni til Vestmannaeyja og ljósin í bænum sáust vel um kvöldið.  Við gerðum lítið annað en að slaka á spila kana (sem ég lærði loksins að spila) borða og blaðra.  Keyrðum reyndar upp Vatnsdal eins langt og hægt er að komast á fólksbíl og svo aftur í átt að Þórsmörk.  Bölvuðum öllum jeppum sem við mættum.   Flýtti Kaupmannahafnarferðinni um einn dag, fattaði svo eftir á að brúðkaup Kerenar og Tom er helgina áður.... Stefnir þess vegna allt í að við skoðum það að fara í brúðkaupið þeirra í Ísrael...

15.7.04

Jæja. Ég klúðraði Mexíkó ferðinni með glæsibrag. Hringdi loksins í morgun til að panta og þá var það orðið of seint. Sveiattan. Gekk hins vegar vel að finna aðra ferð í stað. Við förum til Túnis, á eyjuna Jerba. Þaðan er hægt að fara í tveggja daga ferð inn í Sahara, og fara í alls konar fleiri ferðir. Þannig að við erum bara sæl og glöð. Gekk frá ferðinni þannig að við verðum í 3 daga í Köben áður en flogið er til Túnis. Sem þarf kannski að hugsa betur og breyta, því ef við komum okkur aðeins fyrr út ættum við auðveldara með að koma okkur í leiðinni til norður Svíþjóðar og vera við brúðkaup Kerenar vinkonu minnar. Legg það fyrir nefndina í kvöld og breyti þessu svo á morgun ef okkur líst á.

11.7.04

Jæja, þá erum við búin að fara á Heklu. Fórum nefnilega í Hekluferð með Útivist í dag. Byrjuðum að labba frá bílastæði sem er í 450 m hæð og gengum þaðan upp á gamla toppinn í tæpa 1.500 metra. Labbið með öllum pásum tók um 7 klukkutíma. Það var gott veður og heitt lengst af, en skítakuldi uppi á toppi. Eina sem út á þetta var hægt að setja er að helmingurinn af liðinu sem var í þessari ferð var þvílíkt leiðindapakk, hlýddi ekki fararstjóranum og annað eins.




8.7.04

Ég hef aldrei heyrt sjálfseyðingarhvöt birtast jafn sterklega í orðum stjórnmálamanna eins og í kommenti Illuga Gunnarssonar um að það hefði ekki staðist stjórnarskrá að afturkalla djöfulsins bull frumvarpið, en það stæðist hins vegar stjórnarskrá að leggja fram helvítis brellufrumvarpið (ok, hann orðaði þetta ekki svona, en það var inntakið í orðum drengsins). Illugi er vænn og skemmtilegur strákur og kannski var þetta engin sjálfseyðingarhvöt sem þarna birtist, heldur bara augnabliks ofurheimska í óverjandi stöðu. Í öðru sæti yfir annað eins eru þau orð Bjössa Bringu að breytingarnar á brellusíðunni hans hafi verið tilraun til að sjá hvort fylgst væri með henni. Heldur maðurinn að við séum svona heimsk?


Hvað er með hárið á Lenny Kravitz? Missti hann kúlið? Steikti hann á sér heilann?

6.7.04

Ha ha!

Á föstudaginn var haldið af stað í útilegu á Varmalandi í Borgarfirði. Við komum fyrst á staðinn og fundum fínasta blett á tjaldstæðinu, út í horni þar sem við gátum verið út af fyrir okkur. Svo fór fólkið okkar smám saman að týnast á svæðið; Rúna og Mundi með Ísak og Áróru, Kristín Linda og Ari með Nótt og Birtu, Erna og Sigfús, og svo Dís með Gabríelu og Jóhann Lárus. Við tjölduðum og grilluðum og slökuðum á. Dís ofurkona opnaði bar með öllum herlegheitum og blandaði drykki í tugavís ofan í liðið. Daginn eftir fórum við í stuttan göngutúr og í sund, og svo fóru allir í Reykholt þar sem Eva, Kolbeinn og Heiða biðu eftir okkur.

Við fengum góða leiðsögn um safnið í Reykholti, kirkjuna og Snorrastofu. Mjög upplýsandi og skemmtilegt. Ég hafði líka sérstaklega gaman af þessu þar sem ég er nýbúinn að komast að því að ég er komin í beinan legg af Snorra Sturlusyni, í 22. lið. Eftir Reykholt fórum við bara aftur upp á tjaldstæði, grilluðum og sátum og spjölluðum fram á nótt í rigningunni. Við fórum svo tiltölulega snemma í bæinn daginn eftir og horfðum á leiðinlegan úrslitaleik EM.

Annars voru makar saumaklúbbsdísa skipaðir í ferðanefnd fyrir útilegu næsta árs. Mundi skýrði hópinn Andspyrnuhreyfinguna.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?