<$BlogRSDUrl$>

31.5.04

Gleymdi að segja frá því að á spænsku heiti ég Espanahada, eða eitthvað svoleiðis, ég þarf að tékka á þessu aftur. Örugglega ekki nafn á spænsku en þetta er orðrétt þýðing... Búin að tékka - það er Espadahada. Gæti líka verið Espadadiosa...

Ykkar einlæg,
Espadahada

30.5.04

Fórum upp í Hvalfjörð í dag, inn í botn, og löbbuðum upp að Glymi. Keyrðum svo til Þingvalla og þaðan heim. Frábær dagur; gott veður, náttúra og nett fjallganga. Liggjum núna upp í sófunum heima, í sæluvímu eftir daginn. Erum búin að plana tvær og jafnvel þrjár útilegur í sumar og vonandi förum við í einhverjar lengri göngur.

Næstu plötukaup: Damien Rice og tónlistin úr Donnie Darko. Kaupa svo áskrift að tónlist.is.

29.5.04

Ég skilaði greininni minni í gær. Og það er eru mikil fagnaðartíðindi - bara svo það sé á hreinu. Hún mun birtast í haust í riti sem lagadeild Stokkhólmsháskóla gefur út einu sinni á ári og heitir Scandinavian Studies in Law. Þemað í ár er ITC law og þannig kom það til að mér var boðið að vera með. Aðrir Íslendingar sem skrifa í þetta rit eru Jónína Lár og Páll Hreinsson. Næsta utanvinnu-verkefnið er málþingið næsta föstudag, en ég held að ég eigi þetta nú mest tilbúið einhvers staðar. Er því pollróleg og ætla að vera í fríi alla hvítasunnuhelgina.

Maggi varð 30 ára á fimmtudaginn. Það rigndu yfir hann hamingjuóskir og gjafir, og svo fórum við á Galileo um kvöldið í boði Gumma. Þetta er n.b. tvisvar í sömu vikunni sem við förum þangað. Ég er alveg dolfallinn yfir einum af forréttunum þar - geitaostur og döðlur vafið inn í parmaskinku og grillað, borið fram á klettasalati með smá slettum af sósu og parmesan. Bilað gott. Já, afmælið hans Magga. Hann er meðal annars orðinn stoltur eigandi keppnis útivistargalla - Goretex skel; buxur og jakki, úr Flight línunni frá North Face (ekkert slor sem sagt), ullarföðurland frá Cintamani og flíspeysa frá North Face. Nú er bara að skella sér í göngu!

24.5.04

Heja Sverige, här kommer vi! Erum á leið til Stokkhólms, til Stjóna og Nínu! Förum eftir tvær vikur! Get ekki beðið!

Oooooggg, fengum boð í brúðkaup Keren og Tom, bæði í Svíþjóð og í Ísrael!

23.5.04

Greinin mín er á lokastigi, jibbíkóla!

Erum að velta fyrir okkur Stokkhólmsferð næstu helgi, í tilefni af þrítugsafmæli Magga á fimmtudaginn.

Fórum á 101 Reykjavík í gær og Galileo á föstudagskvöldið (lúxusgrísir). Maturinn príma og voða gaman að koma á svona flottan stað eins og 101 Reykjavík er.

21.5.04

Ohhh, hvað það er mikill lúxus að líða líkamlega vel. Er orðin góð eftir einkar sársaukafullan og svefnlítinn sólarhring. Hugsaði mikið um það hvað það er mikið helvíti að upplifa svona sársauka endalaust og hvað ég er í raun heppin.

Vinnuhelgi framundan, ég verð ekki í helgarfríi fyrr en 5. júní, vegna aumingjaskapar míns og vanhæfni til að segja nei. Sem ég er reyndar alltaf þakklát fyrir eftir á...

15.5.04

"Gunga og drusla" eru skammaryrði vikunnar.

12.5.04

Tel að Ólafi Ragnari sé skylt að synja staðfestingar á fjölmiðlafrumvarpi, verði það samþykkt. Í fyrsta lagi snertir það skerðingu á mörgum ákvæðum stjórnarskrár um mannréttindi, í öðru lagi er ljóst að mikill meirihluti kjósenda er mótfallinn frumvarpinu, og í þriðja lagi hefur málið ekki fengið eðlilega meðferð í þing. Þetta nægir í mínum huga, og reyndar gera fyrstu tvö atriðin það. Þetta er satt að segja eina úrræðið sem eftir er (að synja staðfestingar) og það á að virka einmitt svona. Það er ótækt að unnt sé að afgreiða frumvarp í andstöðu við vilja þjóðarinnar, enda er það ekki svo að þjóðkjörnir fulltrúar eigi að hafa vit fyrir meirihluta þjóðarinnar, þvert á móti mega þeir ekki ganga gegn meirihluta þjóðarinnar - það væri ekki lýðræði. Hagræðið af því að hafa fulltrúalýðræði, í stað beins lýðræðis, er ekki lengur réttlætanlegt ef kjörnir fulltrúar okkar misnota með þessum hætti umboð sitt. Forsetinn er kosinn til að gegna þeim hlutverkum sem honum eru fengin í stjórnarskrá, og í raun er það eitt þeirra hlutverka að gæta hagsmuna almennings þegar löggjafarvaldið setur lög sem skerða mannréttindi í andstöðu við vilja þjóðarinnar. Forsetinn hefur mjög takmarkað vald í stjórnskipuninni og þetta er í raun það eina sem raunverulega skiptir máli. Hann á að vera einhvers konar öryggisventill. Hann er kosinn í því trausti að hann uppfylli skyldur sínar, þar með talið þessa. Hann mun bregðast þessu hlutverki sínu ef hann staðfestir lögin.

10.5.04

Já, við fórum á hamborgarabúlluna hans Tomma í gærkvöldi. Mjög sjarmerandi búlla og alveg stappað af fólki. Tommi öskraði yfir staðinn (og fólkið) þegar ég kom inn "Ertu að sækja um vinnu?" Ég svaraði að sjálfsögðu "Já". Borgararnir góðir og allt eitthvað svo yndislegt, sérstaklega brunaleiðbeiningarnar sem skrifaðar voru með svörtu tússi á venjuleg A4 blöð "Ef það kviknar í hlauptu þá út hér".

Helgin var ágæt - fór mest í greinarskrif mín og lærdóm Magga. Greinin mín er loksins að taka á sig einhverja mynd. Það er hellings vinna eftir, en á streitumælikvarða er það er ekkert mál við hliðina á því sem á undan er gengið - finna efni sem hægt er að skrifa um bæði út frá praktískum og fræðilegum ástæðum, mynda sér skoðun, finna línu og punkt. Þó ég fái sjálfsagt lítið eða ekkert af frídögum í maí vegna þessa þá er það bara allt annað þegar ég veit hvert verkefnið er. Hjúkk, og ég vona að ég sé ekki að jinxa þetta allt saman með þessu blaðri.

Maggi svaf nákvæmlega 100% meira en ég í nótt. Við fórum snemma upp í rúm að mínu undirlagi, rétt upp úr 10. Magga leist ekki á þetta og hélt að hann myndi bara enda á liggja andvaka. Hann sofnaði nánast á mínútunni. Ég las hins vegar til að verða 1 (kláraði ævisögu KG) og lá síðan andvaka til rúmlega 2. Var svo komin á fætur klukkutíma fyrr en hann. Er reyndar himinlifandi að hann hafi sofið svona mikið - ekki misskilja mig.

3.5.04

Er ekki rétt að endurvekja umræðuna um skipun nýjasta Hæstaréttardómarans? Las þetta á bloggi einhvers laganema sem ég þekki ekki haus né sporð á:

"Það er eins brot á jafnréttislögum teljist ekki lögbrot í augum sumra."

Jebb. Og hvaða bull er þetta með að ráða þurfi konu þegar fleiri karlar eru í sömu stöðu. Hvar í ósköpunum stendur það? Hvergi, enda á ákvæðið bara við þegar um tvær jafnhæfar manneskjur er að ræða. Það þarf fyrst að skoða það, áður en litið er til kynjahlutfalla. En þetta var bara alls ekki málið í tilviki Hjördísar Hákonardóttur og því fyrirsláttur að beina athyglinni að þessu ákvæði. Nafna mín var ekki jafnhæf Ólafi Berki, hún var hæfari. Og sá sem vill ekki vera settur undir það að þurfa að skipa hæfari manneskjuna í dómarastöðu mun eiga ansi erfitt með að rökstyðja þá afstöðu. Hitt er svo annað mál að það var brotið á fleirum með þessari ráðningu, enda fleiri hæfari Ólafi en nafna mín.

Skipun hæstaréttardómara, fjölmiðlafrumvarpið, ýmislegt sem ekki er hægt að birta hér, viðbrögð Davíðs við fyrri kvótadómnum, öryrkjamálin og viðbrögð ríkistjórnarinnar við því, eftirlaunafrumvarpið. Og þetta er allt okkur að kenna því við höfðum ekki vit á því að sýna lýðræðislegt aðhald með því að kjósa öðruvísi en síðast.

Ég er alveg róleg þrátt fyrir að vera að fara í málfl. í fyrramálið. Sennilega er það greinin sem ég á að skila 30. maí og vonlausar tilraunir mínar til að finna hentugt efni sem valda því að ekkert annað í heiminum nær að stressa mig. Ætli þetta séu góð bítti? Aða vera pollróleg yfir öllu (nema einu) að því að eitthvað eitt er að yfirtaka allar mínar hugsanir?

Er annars komin með æði fyrir tómatsúpunni á Kaffi París.


2.5.04

Ja man.

Nú er ég búin að vera einn og hálfan tíma á skrifstofunni og ég er ekki byrjuð á því að sem ég ætti að vera gera. Þá er best að blogga smá. Fór á fætur með mínum vanalega hamagangi í morgun, útvarpið þannig stillt að ég gæti hlustað á það í sturtunni (útvarpið er í svefnherberginu...). Ef smástund var bankað á hurðina. Ég opnaði á handklæðinu einu saman og fyrir framan mig stóð unglingstúlka af efri hæðinni, með maskara niður á kinnar og hárið út í loftið, drafandi svefndrukkinn og kannski timbruð. Svona var samtalið:

Hún: Ertu til í að lækka bara aðeins?
Ég: Varstu sofandi? Já, auðvitað, ekkert mál...
Hún: (Þögn og smá vagg fram og til baka - svefndrukkin, þynnka, svefndrukkin, þynnka...)
Hún: Svefnherbergið mitt er beint fyrir ofan og það glymur beint upp...
Ég: Já, ekkert mál.
Hún: (örstutt þögn á meðan pirringurinn ólgaði í henni).... Klukkan er ekki orðin 10 á sunnudagsmorgni, og ég hrekk og hrekk bara við í rúminu...
Ég: Já, ekkert mál.
Hún: Ok, bæ
Ég: Bæ

Ég lækkaði auðvitað í snarhasti. Ég veit hins vegar ekki alveg af hverju mér finnst þetta svona fyndið, en ég get ekki hætt að hlægja að þessari uppákomu. Kannski var það maskarinn.

Annars fórum við í mat til Stínu og Óla í gær. Mjög fínt kvöld. Jæja, nú hunskast ég til að gera eitthvað.



This page is powered by Blogger. Isn't yours?