<$BlogRSDUrl$>

29.2.04

Ég ætla bara að láta ykkur vita af því að ég er ekki í bloggstuði þessa dagana. Varð algerlega afhuga því síðustu helgi að blogga. Ákvað að fara í nett frí og sjá svo til. Ég hef hins vegar mjög gaman af því að fylgjast með hjá þeim sem ég þekki í gegnum bloggið. Ég vona að einhver hafi líka gaman að því að lesa mitt blogg.

Mundi eftir því í dag að ég ræð því hvernig mér líður. Var að fá einhvern sunnudagsgráma yfir mig, og tók á það ráð að brosa. Það virkaði. Alveg satt.

Við skruppum í kaffi til Ása og Lindu í dag, og sáum svo American Splendor. Hún er ágæt. Þetta hefði sennilega verið uppáhaldsmynd Auju fyrir ca. 12 árum síðan. Hún var þá á kafi í Kurt Vonnegut, sem ég hins vegar þoldi ekki. Las annars frábæra smásögu eftir Auju um Guðrúnu Evu Mínervudóttur, og spegilssögu Hallgríms Helgasonar um Mikael Torfason. Ótrúlega góð hugmynd. Það er hægt að nálgast þessa sögur inn á heimasíðu útgefanda Auju og Hallgríms.

Við þurfum að fara að komast að því hvernig við eigum að koma okkur til Búdapestar um páskana. Planið er að heimsækja Betty vinkonu mína. Hún er búin að bjóða fram íbúðina sína og verður í fríi sjálf, eins og vera ber. Hún ætlar sjálf að gista hjá kærastanum, honum Csongor. Við kíktum á heimasíður Heimsferða og Úrvals Útsýnar í gær, og sáum myndir frá Búdapest. Mjög falleg.

Ég ætla að eiga góða viku.



22.2.04

Helgin er búin að vera tíðindalítil, fyrir utan það að Maggi breyttist í hálfa kálgarðsdúkku á föstudaginn, greyið. Hann Fór í endajaxlaaðgerð á föstudaginn og bólgnaði svona svakalega þeim megin sem skorið var. En nú er þetta allt að koma og kálgarðsdúkkan er smám saman að hverfa.


Hmmm. Ákvað að taka kommentakerfið út.

19.2.04

Framhaldssaga af matnum.

Ég er búin að vera veik í maganum síðan ég eldaði þessa svakalegu máltíð. Er reyndar orðin góð akkúrat núna. Tek þó fram að ég varð ekki veik af ofáti....

Saumó hjá Rúnu í kvöld og ég hlakka mikið til.

16.2.04

Ja hérna. Var svo mikið í þurfi fyrir heitan mat að ég eldaði svakamáltíð fyrir mig eina, og borðaði svo á mig gat. Gat ekki einu sinni eldað úr öllu sem ég keypti. Við verðum einhverja daga að klára þetta allt saman. Ég er með einhverja áráttu í sambandi við eldamennsku, elda yfirleitt fyrir heilan her. Við þyrftum að eignast tvö til þrjú börn til að mín eldamennska hentaði í eina máltíð.


Pabbi fór í morgun. Helgin var fín og allt gekk vel. Ég held að pabbi hafi náð að slappa vel af og skemmta sér vel. Hann var í hörkustuði í afmælinu hennar Sollu, hélt stutta ræðu og dansaði á fullu. Ég heyrði einhverjar konur, bekkjarsystur Sollu úr Leiklistarskólanum held ég, vera að furða sig á því að hann væri orðinn 80 ára. Sögðu hann líka mikinn töffara. Ég kunni nú ekki alveg við að segja honum frá þessu. Geri það kannski seinna. Gunnarshús skapar skemmtilega umgjörð um veislur af þessu tagi og hljómsveitin gerði líka mikið. Þórður Högnason var á bassa, Ari bróðir Gyðu á nikku og svo var einn til viðbótar á fiðlu. Tónlistin var svona blanda af austur-evrópskri sígaunatónlist og rúmbu. Mjög flott. Skrifa meira í kvöld.

14.2.04

Góðan daginn heimur.

Ég hélt að ég væri að fara að hitta unga stúlku í dag, sem er að hugsa um lögfræðinám. Hún hefur hins vegar ekki enn látið heyra í sér, þannig að við sjáum bara til. Ég ætla mér nú aðallega bara að svara spurningum hennar, en eins ætlaði ég að reyna að fá hana ofan af því að fara í HR. Forsendurnar fyrir því vali hennar eru ekki réttar (leggur ekki í fyrsta árið í HÍ). Lögfræðin er ekki létt starf og prófin eiga að vera erfið. Ég tók mig til í gærkvöldi og bar saman námsframboð, kennaralið og skipulag í HÍ, HR og HA (ég sleppti Bifröst þar sem ég hef orð manna sem þekkja til fyrir því að það sé ekki gott prógramm þar) og þetta er engin samkeppni. HÍ stendur nokkuð mikið upp úr af þessum þremur með tilliti til allra þessara þátta. Námið í HA er nýstárlegast, en ég hef efasemdir um að það sé gott sem eiginleg lögfræðinám. Öðru máli kann að gegna um fræðilegt gildi þverfaglegrar og alþjóðlegrar nálgunar í HA, og það má vel vera að þetta nám sé í sjálfur sér bæði áhugavert og mikils virði - þetta virkar bara ekki sem lögfræðinám, enda þarf einfaldlega allan tímann til að læra hreina lögfræði. Námið í HR er mun nær því að vera eiginlegt lögfræðinám, en reynslan er lítil, kennaraliðið fámennt og ekki jafn sterkt lið og í HÍ, og námsframboð er mun takmarkaðra. Þannig eru valfögin tvöfalt og jafnvel þrefalt fleiri í HÍ. Eins tel ég að skipulagið sé betra í HÍ. Svo dæmi sé tekið er kröfuréttur kenndur á fyrstu önn í HR, sem er mjög undarlegt. Greinin er mjög erfið og grundvallarfag. Ég hefði talið betra að fólk væri orðið fullnuma í réttarheimildafræði og lögskýringum ÁÐUR en fag á borð við þetta sé lagt fyrir nemendur, og lögfræðihugsunin sé orðin nokkuð þroskuð áður en lagt er í þetta fag. Svo er þetta bara alltof lítið - ein önn á fyrsta ári. Ég myndi alla vega ekki ráða til mín lögfræðing sem væri bara með þennan kröfuréttarbakgrunn.

13.2.04

Stórafmæli hjá elstu systur minni um helgina og pabbi að koma suður í kvöld. Ég þarf að kaupa aukasæng á eftir og afmælisgjöf á morgun. Reikna annars með að nota eitthvað af helginni í rannsóknarvinnu. Langar á Monster...

11.2.04

Ég fór að sjá Óvininn á mánudaginn. Hún er ágæt, en dálitið hæg. Það er hins vegar alltaf jafn gaman að sjá myndir frá ekkienskumælandi svæðum. Eitthvað nýtt. Ég held að Maggi sé að reyna að plata mig og skrifa comment á síðasta póst undir nafni Gumma. Ég skrifaði nefnilega allskyns vitleysu í hans nafni í gær....

10.2.04

Halla systir og Brynjar giftu sig í leyni á laugardaginn. Þau hafa verið saman í 16 ár og eiga snillingana tvo, Elvar Orra og Birkir Leó.

8.2.04

Ég er búin að vera með 0.001% kvíðahnút í maganum vegna greinar sem ég samþykkti fyrir meira en hálfu ári að skrifa í sænskt rit um norrænar rannsóknir í lögfræði, og á að skila af mér í maí á þessu ári. Ég var búin að ákveða með sjálfri mér að byrja rannsóknarvinnu þessa helgi, og er sem sagt búin að sinna henni núna í ca. 15 mínútur (þá er svo sniðugt að fara að blogga) og viti menn... Ég er bara nokkuð spennt fyrir þessu og sé fram á að geta mótað mér skemmtilegt verkefni og hafa gaman af þessu öllu saman. Ætla ekkert að láta uppi um þetta fyrr en titilinn er fullmótaður, sem verður vonandi í lok þessa mánaðar.

Annars fengum við Árna og Kötlu í mat í gær. Mjög fínt og alltaf gaman að eyða kvöldstund með skemmtilegu fólki. Á eftir er stefnan að fara í sund og svo er ég búin að lofa Magga að fara að sjá Kaldaljós, gegn því að við förum að sjá Monster seinna. Maggi situr núna sveittur við að semja sókratíska samræðu, hí hí.

7.2.04

Tilkynning til hinna og þessara: Lesið ykkur til um sögu Palestínu og Ísrael og hættið að halda því fram að sjálfsmorðsárásir og önnur hryðjuverk megi skilja í ljósi hersetunnar á Vesturbakka og Gaza. Hættið að vísa til þessarar hersetu sem ástæðu gyðingaofsókna í París.

Vitið þið ekki að hersetan kom til í 6 daga stríðinu, og vitið þið ekki að 6 daga stríðið hófst með árás á Ísrael? Og vitið þið ekki að hryðjuverk og ofsóknir af þessu tagi voru löngu byrjuð fyrir 6 daga stríðið. Ég er ekki að vísa í helförina, undanfarandi ofsóknir fyrir seinni heimstyrjöld, eða ofsóknir þær sem hafa átt sér stað í árhundruð, heldur árásir á ísraelska borgara eftir stofnun Ísraelsríkis. Þær byrjuðu á fyrsta degi eftir að stofnun ríkisins var lýst yfir og ekki gleyma því að á sama tíma var ráðist á Ísrael. Og Hamaz hefur lýst því yfir að þeirra "aðgerðir" hætti ekki þó hersetu verði hætt, heldur muni þær halda áfram þar til Ísraelsríki verður lagt niður. Það er kjarninn í þessum átökum. Það snýst um tilvist Ísraelsríkis og gyðinga, ekkert annað. Og finnst ykkur það í lagi?

Og ekki gleyma því að fólkið sem annað hvort var sinnulaust gagnvart ofsóknum á hendur gyðingum fyrir fyrri heimstyrjöld, ja eða bara gagnvart helförinni sjálfri, hafði sínar afsakanir. Þið teljið ykkur geta réttlætt morð á saklausu fólki sem vogar sér að ferðast með strætó, eða eyðileggingu eigna kaupmanns í París, með tilvísun til hersetu, pólítísks ástands o.s.frv., en þetta fólk hafði líka sínar réttlætingarástæður á sínum tíma. Við höfum bara nógu mikla fjarlægð til að sjá hvað þær voru fáranlegar. Eða hvað? Kannski finnst hinum sömu og ég er að skrifa til núnar ekkert athugavert við að snúa baki við grimmdarverkum af því að þau snúa að einhverjum sem gat bjargað sér í erfiðu efnahags- og atvinnuástandi? Eðe er bara öðruvísi en þið hin?

Og verst eruð þið sem réttlætið þessi grimmdarverk með tilvísun í stefnu Ariel Sharon og aðgerðir ísraelska hersins. Skammist ykkar. Skammist ykkar fyrir að réttlæta morð á saklausu fólki af því að annað fólk hefur látið lífið.

6.2.04

Við fórum líka á ekta enskan pöbb í Mayfair. Mjög fínt. Fékk mér að sjálfsögðu Guinness, reyndar með smá trönuberjasafa út í eftir uppskrift og fyrirmælum Olivene. Best að fara að skrifa henni þakkarbréf.

Ja há. Ég er sko mætt. London var fín. Hér kemur ferðasaga. Við lentum á fimmtudegi og snöruðum okkur upp á hótelið okkar í Mayfair. Það stóð engan veginn undan væntingum, en sennilega kostar helmingi meira að gista í Mayfair en í ýmsum öðrum hverfum. Hótelherbergið var bara skonsa og ekkert flott. En staðsetningin var frábær og það skiptir máli. Við löbbuðum um í hverfinu um daginn og fórum svo á Moro um kvöldið. Moro er spænskur veitingastaður á mörkum City. Ágætur. Eftir það var bara skrollað heim á hótel og sofið í 11 klukkutíma. Á föstudeginum fórum við á British Museum og skoðuðum þar eins og við gátum til um 16:30. Þá var komin tími á að koma sér í Soho til að sjá Mamma Mia í Prince Edwards Theatre. Mamma Mia er svona sillí pleppa leikrit með Abba lögum, og viti menn, alveg frábær sýning. Það var fróðlegt að sjá gestina. Um kvöldið fórum við svo á Asia de Cuba, sem virðist vera uppáhaldsstaður Íslendinga í London þessi misserin. Og það var eiginlega hápunktur ferðarinnar. Umhverfið frábært, maturinn brilljant, þjónustan góð. Lúxusgrísirnir í essinu sínu. Á laugardeginum.... Dí... ég man ekki hvað við gerðum. Jú við fórum í Harrods og Harvey Nichols. Harrods er bara orðið að prumpi, en Harvey Nichols var æði. Var labbaði dáleidd um að dáðist að Chloe fötum og Jimmy Choo skóm. Keypti mér svo bara Jelly Beans og borðaði yfir mig af þeim það sem eftir lifði ferðarinnar. Um kvöldið hittum við Olivene og fórum með henni á pup/veitingahús/klúbb í Islington. Það var brilljant og gaman að hitta Olivene. Hún er Kanadamær, var skólasystir mín í Stokkhólmi, og er núna að taka kúrsa til að klára enskt lögfræðipróf. Hún stefnir á að búa í 5 ár í London og svo bara eitthvað. Hún var dálítið upptekin af Amsterdam samningnum og Mannréttindasáttmálanum, en ekkert of. Mjög skiljanlegt þar sem allt þetta Evrópudæmi er nýtt fyrir henni, jafnvel þó prógrammið okkar í Stokkhólmi hafi verið mjög Evrópusambandsmiðað. Á sunnudeginum fórum við á Tate Modern. Þeir eiga svakalegt safn af nútímalist - Koons, Pollock, Hirst, Miró, Dalí, Picasso, Warhol og svo framvegis. Alla sem skipta máli nema Kandinsky og Barney. Ólafur Elíasson (born in Copenhagen, works in Berlin, eins og þar stendur) er í góðum félagsskap. Á sunnudeginum fórum við líka í skoðunarferð, sem er orðið algert möst hjá okkur í öllum borgum. Mælum með því að fólk byrji reyndar á því. Um kvöldið fórum við á hinn ofurvinsæla Nobu, sem var ágætt. Og sáum svo Lost in Translation á eftir, sem var snillld snilld snilld. Mig langar til Tokyo.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?