<$BlogRSDUrl$>

26.1.04

Sælir lesendur góðir (allir fimm eftir því sem ég best veit). Vek athygli á kommenti Óggu við síðasta póst. Heyr heyr.

Ég gerði mér ekki grein fyrir því fyrr en í þessum töluðu orðum að það sé eitthvað vandræðamál fyrir bandarískar konur að setja hausinn í kaf í sundlaug með klórvatni. Íslendingar gera þetta ansi reglulega, alla vega svona meðaljón og jónan. Og hafa alveg sæmilegt hár. Og finnst fáranlega subbulegt að sjá einhvern með þurrt hárið í sundi. Ann vinkona okkar Magga sagði mér reyndar frá því að fólk gangi út frá því í Ameríku að verða skítugt ef það fer í sund og tilhugsunin um að þurfa þvo sér með sápu áður en farið er ofan í laugina sé dálítið skrýtin. Ég lagði henni afskaplega skýrar línur með sundferðir í Reykjavík í sumar þegar hún kom í heimsókn, og hún fór eftir því öllu saman - reif sig úr fötunum í skiptiklefanum og fór ekki í sundbolinn fyrr en hún var búin að þvo sér. Ég var yfirmáta stolt af henni sem fyrirmyndartúrhesti.

25.1.04

Maggi situr í sófanum og flettir í gegnum Time Out veitingahúsabókina. Hans verkefni er að finna súper spennandi stað til að panta borð á. Hann heldur að ég sé að gera eitthvað sambærilegt, sitjandi á móti honum í hinum sófanum, en ég er bara að blogga. Hann kveikir nú sennilega á perunni ef hann leggur við hlustir, enda þarf vanalega ekki að slá stanslaust á lyklaborðið til að vafra um vefinn. Ég er nú ekki vön að blekkja eiginmann minn svona, en ég veit að hann tekur þessu með jafnaðargeði.

Helgin hefur liðið í mestu rólegheitum. Við elduðum lúxus plokkfisk í gær. Ég fékk mér mitt uppáhaldsrauðvín með (já það er fínt að fá sér rauðvín með fiski). Upphaldsrauðvínið mitt er billegt ítalskt rauðvín, Santa Cristina. Ég hafna því að þetta þýði að ég sé með ódýran smekk. Þetta þýðir að bara að ég hef gott nef fyrir ódýrum góðum rauðvínum. Segjum það allavega í bili. Úpps, Maggi var að spyrja mig hvort ég væri að skrifa ritgerð. Það komst upp um mig.

Eitt að lokum. Við sáum loksins Lilja 4-ever í gærkvöldi. Myndin heitir Lilya 4-ever á Íslandi, sem mér finnst undarlegt, en sennilega hefur ekki verið gert upp á milli útlendra málsvæða í markaðssetningunni. Myndin er listaverk. Glæpur og refsing kvikmyndasögunnar. Ekki vegna þess að söguþræðirnir séu að einhverju leyti líkir, nema að því leyti að draga upp mynd af soraverkum mannanna (ég mun aldrei gleyma þeim parti í Glæp og refsingu þegar sem fyllibyttan hryggbraut hest sinn með barsmíðum). Ég á við áhrifin á mig sjálfa, og því væntanlega fleiri. Myndin er ein af þessum vanmetnu myndum. Hún var alls ekki vanmetin í Svíþjóð, en hér hef ég nánast eingöngu heyrt talað um hana í tengslum við umræðu um mansal. Þá er myndin hliðarstærð í umræðunni. Hún er hins vegar merkilegt kvikmyndaverk, og á skilið athygli sem slík, ekki bara sem samfélagsgagnrýni Lukas Moodyson.

Annars hugsa ég að fáir geri sér grein fyrir því að Lilja 4-ever byggir á sannri sögu. Ég hef séð heimildarmyndina um hina raunverulegu Lilju, sem kom til Svíþjóðar frá Eistlandi. Í heimildarmyndinni var farið til heimabæjar "Lilju" og talað við ættingja. Skeytingarleysið gagnvart barninu var átaklegt. Allt viðmótið var eins í myndinni. Ég er heldur ekki viss um að allir geri sér grein fyrir að þetta mál er ekki einsdæmi í Svíþjóð. Síðasta vor réðst lögreglan í Stokkhólmi til atlögu við kynlífsþrælahald í Bergshamra.

Ef ég heyri einhvern tímann aftur það heimskulega komment að fólk sé sjálfviljugt í svona "vinnu" og bla bla bla, þá ætla ég að benda viðkomandi á að horfa á þessa mynd, með það í huga að atburðirnir gerðust og að þeir hafi ekki verið einsdæmi. Þetta er verra en nútímaþrælahald. Þetta er ekki bara spurning um frelsissviptingu og misnotkun á neyð annarrar manneskju, nauðung og þar fram eftir götunum. Það sem skilur á milli er að fólkið (sjálfsagt mest konur og stúlkubörn) er neytt til að bjóða öðrum upp á líkama sinn. Og það er ekki þetta fólk sem fær peningana fyrir "greiðann", það er "heppið" ef það fær mat að borða. Vaknið nú greyin mín, segi ég við þá sem gera lítið úr vændi og fegra það. Horfið á þessa mynd.


23.1.04

Þorramatur í sjónvarpinu. Ekki mitt uppáhald.

Ég ætla að fara á einhverjar þessar kvikmyndir sem eru á frönsku kvikmyndahátíðinni, mig langar að sjá allar nema þrjár, þannig að það er úr nógu að velja.

Enn önnur vinnuvika búin. Hún gekk ágætlega. Ég fór að skokka í hádeginu með Einari Karli. Nú er stefnan að fara að skokka reglulega aftur.

Ég hafnaði því að mæta í sjónvarpssal í kvöld en benti á annan í staðinn, sem stóð sig feikivel. Ég hef verið að spá það af hverju ég sagði nei. Konur eru katergorískt tregari til að gera svona, og það er miður. Og það er miður ef ég hafna svona á röngum grundvelli. Réttur grundvöllur er til dæmis að hafa ekki tíma, áhuga, eða að vita ekkert um efnið. Ekkert átti að þessu við í þessu tilviki, en á því augnabliki sem ég var beðin um þetta hugsaði ég um að ég væri ekki sérfræðingur í tilteknum fleti málsins, þó að ég sé reyndar sérfræðingur í öðrum fleti þess. Og skýrði nei-ið með því. ´ Og kannski er það einmitt á þessum nótum sem allar þessar konur segja nei. Ég er ekki að hugsa um þessi mál í fyrsta skipti núna, og er tiltölulega nýbúin að hafna öðru svona boði. En það þýðir lítið að vera að velta sér upp úr þessu - það eru verkin sem tala.


21.1.04

Ja há. Íslendingar eru að tapa sér í ofneyslu og óhollum mat, segir Stöð 2. Ég er hvorki að tapa mér í ofneyslu eða óhollum mat, en hef nú samt verið nammisjúk undanfarna daga, og aðallega í lakkrís. Ég hef heldur ekkert hreyft mig í óratíma, en það stendur allt til bóta með betra skokkfæri.

Ég keypti mér Outkast og White Stripes um síðustu helgi. Mér líst ágætlega á allt saman, en þó best á disk Andre 3000 í Outkast pakkanum.

Við ætlun að skreppa til London í næstu viku. Verðum á góðu hóteli í Mayfair og ætlum að plana ferðina almennilega. Vanalega puðrumst við bara eitthvað út og gerum bara eitthvað. Við erum ágætlega nösk á að þefa upp það sem er markvert og koma okkur á réttu staðina og í réttu borgarhlutina. Yfirleitt virkar að kaupa bara eina túristabók og vera annars óundirbúin. En ekki í London. Í þessi tvö skipti sem ég hef dvalist í London hefur borgin virkað óaðgengileg á mig, og alls ekki spennandi, þannig að nú dugar það ekki að puðrast bara. Til að gefa einhverja mynd af því hvernig ég upplifi London eftir þessar tvær ferðir, þá finnst mér hún standast álíka vel samanburðinn við Stokkhólm og Frankfurt gerir gagnvart Manhattan. Ömurleg sem sagt. Portobello óaðlaðandi og Notting Hill bara ekki neitt. En það eru bara svo margir í kringum mig sem fíla London, að ég verð að gefa henni þriðja sjensinn, og gera þetta almennilega í þetta skiptið. Allar ábendingar vel þegnar!

Ég er búin að fá leyfi til að bögga eina listakonu sem er búin að búa mörg ár í London og fá púlsupplýsingar hjá henni, enda alveg glatað að reyna að finna slíkt í hafsjó túristaupplýsinga. Svo er ég búin að fá alls konar bækur og dót lánað hjá Othari, þannig að ég get pantað á almennilegum veitingahúsum og allt það. Eina sem er nokkurn veginn ákveðið í mínum huga er að fara á British Museum, Tate Modern, út að borða á Nobu, fara á ekta pöbb, og eitthvað show eða leikrit. Best að spyrja listakonuna um leikrit og spennandi klúbba eða bari.

Adios!

15.1.04

Shout Out dottið út! Og það er brjálað að gera hjá mér í vinnunni!

Annars ættu allir að sjá In the Cut. Jane Campion er snillingur.

7.1.04

Ég er að hlusta á Det är så jag säger det með Håkan Hellström, og mig langar svo mikið til baka til Stokkhólms að ég veit ekkert hvað ég á af mér að gera. Hvað á ég að gera?

4.1.04

Jæja, helgin á enda og árið að hefjast fyrir alvöru. Helgin er búin að vera góð, þrátt fyrir að brotist hafi verið inn í bílinn okkar á aðfararnótt laugardags og rúða í bílnum brotin. Löggan lofaði að lemja afbrotamanninn fyrir mig og hengja hann upp á löppunum á Ingólfstorgi. Þetta er tjón fyrir okkur, en það lenda sjálfsagt flestir í því á lífsleiðinni og voða lítið annað að gera en að sætta sig við þetta (og setja upp banvænt rafmagnsinnbrotakerfi í bílinn, mig dreymir um það núna...). Aðfararnótt sunnudags fékk ég svo innbrotsáfallastreitu í hálftíma og var sannfærð um að öll umhverfishljóð væru vegna þess að verið væri að brjótast inn út um allt og skemma eitthvað sem okkur tilheyrir.

Annars fór ég með Lindu í bröns til Ástu vinkonu okkar á laugardaginn og sat þar fram eftir degi að spjalla. Um kvöldið fengum við gesti í mat til okkar, Guðrúnu Björk, Ingvar og Brynhildi litlu. Mjög fínt allt saman og gaman að eyða heilum degi með vinum sínum. Dagurinn í dag hefur farið í að mála svefnherbergið. Við skildum gluggana eftir - ætlum að ráðast í þá á annað kvöld. Við fengum smá pásu þegar Árni og Katla komu í heimsókn. Okkur hættir til að una okkur ekki hvíldar þannig að heimsóknin var kærkomin.

Ég komst að því í vikunni að Eminem og Jude Law eru jafngamlir og ég. Ævinlega merkilegt að spá í það hverjir eru jafnaldrar mínir. Ég mundi eftir þessu vegna þess að akkúrat núna er lag með Eminem á Popptíví.

Annars skrifaði ég slatta af tölvupóstum til vina minna á föstudaginn. Það, og svarpóstur frá Meike vinkonu minni í Þýskalandi, fékk mig til að sakna ægilega þeirra vina sem ég eignaðist í Svíþjóð síðasta vetur, sérstaklega Meike. Muhhhuuuu.

1.1.04

Síðustu dagar hafa verið fínir og mjög rólegir hjá okkur. Við fórum í gær í mat til Þórgunnar og Frikka. Fengum hrikalega góðan kalkún með öllu tilheyrandi. Kvöldið var svo bara rólegt og notalegt, fyrir utan það að ég fékk blóðsykursfall eftir matinn og var slöpp í stuttan tíma. Ég borðaði ekkert nema pínulítið af konfekti og af bananabrauðinu hennar Guðrúnar Bjarkar allan gærdaginn, þannig að það var ekki von á góðu um kvöldið.

Við fórum í sund í dag og sátum heillengi í gufu. Það hafði ótrúlega góð áhrif á mig og ekki síður andlega en líkamlega. Laugin var troðfull af sundlaugarsjúkum Reykvíkíngum.

Ég hef af gömlum vana lesið yfir lista yfir bestu plötur ársins í blöðunum. Ég tók eftir því að listi Árna Matthíassonar í Mogganum hafði einungis að geyma smærri indie bönd. Þetta er í samræmi við tískustraumana sem eru ráðandi akkúrat núna hjá mörgu tónlistaráhugafólki, og svo sem margir sem hafa verið á þessari línu lengi. Mjög snobbað og óþolandi viðhorf. Leist hins vegar vel á lista Birgis Arnar Steinarssonar í Fréttablaðinu, kannski ekki síst þar sem hann var með Mars Volta í fyrsta sæti sem bendir til að smekkur hans tóni við minn. Ég kaupi oft eitthvað af diskum þegar listarnir birtast um hver áramót, og ég ætla að einmitt að gera það núna. Ég mun alveg örugglega kaupa nýju White Stripes og Outkast, og svo kemur til greina að kaupa Bonnie Price Billy (eða hvernig sem þetta listamannsnafn Will Oldhamns er skrifað). Og kannski eitthvað fleira af lista Birgis. Jordan benti mér líka á mexíkókst band sem er að vekja athygli í Kaliforníu núna og ég ætla að tékka á, og sitthvað annað.

Við förum að koma okkur til Lindu og Ása bráðum. Við erum boðin í nýársmat þangað og svo er ætlunin að spila á eftir. Við vorum búin að kaupa allt í nýarsmat en eldum hann bara á laugardagskvöldið í staðinn og bjóðum kannski einhverju fólki. Gaman þegar svona mikið er að gera í félagslífinu.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?