<$BlogRSDUrl$>

27.12.03

Við erum komin aftur til Reykjavíkur. Jibbí. Hefði átt að heimsækja skrilljón manns á Akureyri, en þar sem við fórum suður í dag gafst ekki tími til þess. Maggi segist ekki ætla að halda jól aftur á Akureyri... Ferðin norður var svo sem engin skemmtiferð, heldur sambland af svaðilför og vinnubúðum, þannig að ég skil hann vel. Ég var líka geðvond allan tímann, en aðallega út í greyið hann pabba. Núna sakna ég hans og mömmu. Svona er þetta.

Við erum enn að bögglast með það hvort við eigum að eyða áramótunum í útlöndum. Það er þó líklegra að svo verði en ekki.

Ég las Da Vinci lykilinn um jólin. Hin besta bók. Uppfull af fróðleik og spennu. Ég gat ekki hætt að lesa hana og tímdi á sama tíma ekki að klára hana. Eru það ekki bestu bækurnar? Plottið er svona nútímaleg Nafn rósarinnar / The Firm. Ég væri til í að lesa fræðilegan ritdóm um bókina (Árni Matthíasson er ekki neins konar fræðingur þannig að hans umfjöllun í Mogganum telst ekki með) aðallega til að fá að vita hvað af sögulegum tilvísunum í bókinni eru réttar. Voru guðspjöllin til dæmis valin í Nýja testamentið á sérstöku þingi sem haldið var á 4. öld e. kr. og höfðu önnur "tilnefnd" allt aðra sögu að geyma? Og svo framvegis.

Ég verð að vinna á milli jóla og nýárs í fyrsta skipti á ævinni. Ég hef reyndar oft verið að læra á þessum tíma, til að mynda í fyrra, en ég hef aldrei verið í vinnunni áður.

Ég spjallaði heillengi við Lilju Björk í gær. Hún var alein heima í Boston á jólunum. Rawn var að vinna. Ég fékk bara í magann þegar hún sagði mér þetta. Við erum að plana hittelsi í Florida í vor, og heimsókn til NY einhvern tímann þegar meðleigjandi hennar þar er í burtu. Gaman gaman. Brúðkaupi Lilju og Rawn voru gerð ítarleg skil í Séð og heyrt einhvern tímann í desember. Ég hafði ekki hugmynd um það fyrr en ég opnaði blaðið á snyrtistofu rétt fyrir jólin. Andlitið datt af mér. Greinin var dálítið fyndin en allt í lagi. Ein neyðarleg villa var í henni - að Lilja ætti heima hjá mömmu sinni í NY. Lilja hefur búið á eigin vegum í skrilljón ár, lengur en flestir jafnaldrar okkar, þannig að þetta var nú ekki alveg rétt.

19.12.03

Ég er komin með tvær nýjar hugmyndir að nöfnum á veitingastaði, skemmtistaði, fyrirtæki og svo framvegis. Fyrra nafnið er "Richter & Thorlacius" og hitt er "Sember" (eins og í desember). Aðrar útgáfur að seinni hugmyndinni eru "Cember", "De Sember" og "De Cember". Ég var áður búin að hugsa um þessi fyrirtækjanöfn "Uggakvísl" og "Oddaflug".

Ég vildi óska þess að ég gæti sameinað það að halda jólin heima hjá mér og að vera með fjölskyldunni. Við förum norður á Þorláksmessukvöld og gistum hjá pabba. Við klárum svo að versla fyrir jólin á aðfangadagsmorgun, og skellum okkur svo beint í eldamennsku til að vera búin með allt gillið fyrir klukkan 7, þegar mamma verður komin á síðasta snúning að koma sér aftur í hvíld á hjúkrunarheimilinu. Svo þarf að koma greyið mömmu þangað, og það verður sjálfsagt ekkert grín. Sem betur fer ætlar mágkona mín að koma og hjálpa okkur við að koma henni í bílinn - hún kann réttu handtökin. Allt er þetta gott og blessað, og verður gaman, en mig langar samt að vera heima hjá mér! Kannski er málið að fara bara í bæinn á annan eins og Maggi vill. Pabbi er búinn að heimta að fá hræðilegasta eftirmat í heimi - ís með niðursoðnum ávöxtum. Hann er 80 ára, bullandi elliær, og finnst þetta alveg vera málið! Af því að ég fer sjálfkrafa í 3ja ára gírinn gagnvart pabba sagði ég að sjálfsögðu að hann gæti haft þetta dót eftirrétt en að við myndum búa til okkar eigin. Það er alltaf að verða skrýtnara og skrýtnara að eiga samskipti við grey kallinn. Hann vildi kaupa eitthvað inn fyrir jólin, og hann er búin að hringja í okkur á hverjum degi síðustu 7 daga, stundum 2svar á dag til að ræða það og eiginlega bara til ákveða hvenær hann eigi að hringja til að ræða hvað hann eigi að kaupa. Þetta reynir ótrúlega á taugarnar, og ég á voða erfitt með að brosa bara og segja já já pabbi minn. Ég vildi að ég gæti það!


18.12.03

Jæja börnin góð. Það er ekkert til sem heitir kvenmannsverk og það er ekkert til sem heitir karlmannsverk. Ég er sem sagt að horfa á karlmann í sjónvarpinu sem heldur öðru fram. Liggur það ekki ljóst fyrir að fólk væri til í að sleppa öllum leiðinlegum heimilisverkum og það er bara svakalega fínt að geta bullað upp einhverja kenningu til að styðja að maður þurfi einfaldlega ekkert að gera þessa hluti.

Ef einhver lendir í því að makinn eða samleigjandi tekur ekki sinn helming að heimilisverkunum er bara eitt vitrænt í stöðunni - ekki gera þessi verk fyrir hann/hana. Ekki þvo föt letihaugsins, vaska upp eftir hann, og hvað þrif varðar þá er bara að sleppa þeim og sætta sig við skítinn þangað til letihaugurinn ákveður að vaxa úr grasi. Og ekki gefa sig. Framkoma gagnvart ábyrgðarlausum maka eða meðleigjanda verður að þessu leyti að vera sú sama og gagnvart barni.

Ja hérna. Ég er hrikalega heppin.


11.12.03

Komið í lag sem sagt. Ég hef ekki getað bloggað þessa viku vegna tækniörðugleika. Mjög grunsamlegra tækniörðugleika. Ég fékk meldingu um að connection hefði verið reset by peer og komst svo ekki lönd né strönd...

Jólastuðið hefur haldið áfram þessa vikuna. Ég hef verið að undirbúa próf í kvöld, sem mun fara fram á laugardaginn. Annað kvöld fer í það líka. Svo bruna ég úr bænum um leið og prófinu lýkur og fer í sumarbústað. Akkúrat núna líður mér eitthvað illa, kannski er ég lasin.

Við fórum á Muse tónleikana í gærkvöldi. Ég er ekkert Muse fan en þetta var nú samt gaman. Keyrslan var aðeins of mikil fyrsta hálftímann og spilagleðin ekki mikil, en það kom þegar á leið. Síðustu helgi sáum við City of God. Hún er ágæt, en ekkert meistaraverk.

Æi, ég er svo slöpp ég nenni ekki að skrifa meira.

Ætli þetta sé enn í ólagi

5.12.03

Muhahhahha Muhahhhaa. Þessi vinnuvika á enda og ég er heil geðheilsu. Og hef ekki haft lyst á bloggi eða öðru síðan á sunnudaginn. Þetta hefur verið mikið at alla vikuna, sem aftur kemur fram í því að ég verð hyper og afskaplega hvöss og beitt við fólk í kringum mig. Og í svona ástandi verður líka erfitt fyrir mig að slaka mér niður á kvöldin. Hvíldartíminn fer í að leysa verkefni morgundagsins, planleggja, yfirfara daginn, planleggja, finna lausnir á hinu og þessu, planleggja. Lífsreglur eins og "einn dagur í einu" fljúga út um gluggann og við tekur (sk)ruðningsvél sem erfitt er að stöðva. En svo er þetta kannski bara árstíminn - það er eins og það komist árlegt jólastuð í minn bransa, ég hef alveg fundið það þessi ár sem ég hef verið í honum.

Það er ágætt að Maggi minnti mig áðan á að hvers konar vandamál sem við eigum við að stríða, sem og flest fólk í kringum okkur, eru hreinræktuð lúxusvandamál. Þetta eru ekki vandamál og tilefnin til að finna til þakklætis eru ótalmörg.

Ég hef verið að gera dálítið í vikunni sem ég er ágætlega sátt við hvernig hefur komið út, og ég býst við að lokahnykkurinn á því dæmi verði á morgun. Ég er dálítið nervös um útkomuna á þessum lokahnykk og vantreysti þeirri konu sem hefur stjórnina á því hvernig þetta mun koma út. Ég veit til dæmis ekki hvaða sjónarhól hún ætlar að taka eða hvort hún er fagmanneskja í sínu starfi. En þetta er alla vega úr mínum höndum núna, og þá gildir að sleppa tökunum og sætta sig við það sem ég get ekki breytt.

Ljót mynd í sjónvarpinu.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?