<$BlogRSDUrl$>

30.11.03

Föstudagur: Vinna og jólagleði í vinnunni. Heppnaðist ágætlega og þetta var allt í orden. Skemmtiatriðin, sem flest fólust í keppnum af ýmsu tagi, voru það besta við kvöldið. Nenni ekki að skrifa um það nema bara að taka fram að það er örugglega mjög fróðlegt fyrir félagsfræðinga og sálfræðinga að skoða hvernig mismunandi hópar hegða sér í skemmtikeppnum af ýmsu tagi. Það hefði örugglega ekki verið barist að svona offorsi á hvaða vinnustað sem er. Og auðvitað var það keppnisskapið sem gerði atriðin svona skemmtileg. Ég gerði mitt ítrasta til að fá að spila tónlistina úr Kill Bill undir dansi og tókst ágætlega. Diskódúkkurnar fengu svo frið fyrir mér í staðinn til að spila 80' dót þess á milli. Mér tókst jafnvel að láta eitt lag með 50 Cents rúlla ótruflað í gegn.

Laugardagur: Fyrri parturinn fór í að undirbúa erindi sem ég kem til með að halda á miðvikudaginn um tölvupóst á vinnustöðum. Það skal vera síðasti fyrirlesturinn sem ég held þennan vetur. Seinni partinn fór ég á opnun hjá Agli Sæbjörnssyni, Gallerí Hlemmi. Ég var mest hrifin af ljósmyndaverkunum og fjárfesti í einu þeirra. Nú er eins gott að Egill standi sig í framtíðinni svo ég get selt það fyrir utanlandsferð síðar meir. Nei, nei. Um kvöldið fórum við Maggi í sund og síðan á Sólon að fá okkur að borða. Eftir það var brunað í ísbúð og svo heim að horfa á Harrison's Flowers. Hún var ágæt. Þeir sem vilja sjá góða mynd sem varðar Balkanskagastríðin ættu þó frekar að sjá Sarajevo. Ég þyrfti að fara að sjá þá mynd aftur.

Sunnudagur: Er enn.... Í morgun er ég búin að vera í erindis-undirbúningi, en ég er hætt í dag. Ég geri glærur á morgun og þriðjudagskvöld. Ég þarf að kringlast aðeins á eftir, og kannski kíki ég til Önnu Karenar frænku. Og kannski elda ég eitthvað gott á eftir. Maggi er á kafi í próflestri og verður í því í kvöld. Ég er að hugsa um að vera bara róleg heima hjá mér, lesa kannski nýjasta Vogue, eða aðra hvora bókina sem ég er með í takinu núna. Önnur heitir Grasshopper og er eftir Barbara Vine (a.k.a. Ruth Rendell) og hin er ævisaga Katharine Graham. Líst ekkert alltof vel á þessar bækur, en ætla mér að koma mér í gegum þá síðari, aðallega vegna þess að mér hefur verið sagt að sagan sé stórmerkileg. Ég þekki svo sem sögu Katharine Graham og veit að konan er stórmerkilegt fyrirbæri í bandarískri sögu. Það er hins vegar mesti misskilningur að hún hafi risið úr öskustó eða brotist áfram til valda með nánast ekkert á bak við sig nema eigin verðleika. Meira um að seinna ef ég nenni....

26.11.03

Þessi hjalli búinn, s.s. fyrirlesturinn minn í morgun. Ég vann að því að undirbúa hann laugardag og föstudag, á mánudagskvöldið frá kl. 7-1 og sama tíma á þriðjudagskvöld. Það fyndna er að ég ætlaði barasta að klára það af að undirbúa hann á laugardaginn síðasta og jafnvel klára kennsluundirbúning líka þann dag. Næsti hjalli er sem sagt að klára kennsluna á föstudaginn. Þar næsti að klára fyrirlestur fyrir hádegismálþing næsta miðvikudag. Gæti verið í fullri vinnu við þetta aukastúss, sem þýðir að þetta er alltof með aukastúss með fullri vinnu. Hmmm. Læra að segja nei.

Ég fann kvennamisrétti á eigin skinni í gær, og úr óvæntri átt. Ótrúlegt hvað þetta er lúmskt og hvað það er sterk tilheiging til að halda konum niðri. Það verður vandaverk að ala upp barn (hvenær sem það verður) sem ekki er eitthvað beyglað af kvennamisrétti.







22.11.03

Jæja, stafirnir allt í einu komnir í lag. Það er ekkert samhengi í þessu.

Ég þoli ekki ameríska þætti sem ganga út að eiginmaðurinn sé eitt af börnunum á heimilinu. Man eftir þremur í augnablikinu sem eru í gangi núna, tveimur á Skjá 1 og einum á RÚV.

Við Maggi elduðum þorsk áðan, nammi namm. Við gerðum sósu úr kókósmjólk og vindaloo carry og suðum hrísgrjón. Hrísgrjónin fóru neðst í eldfast mót, síðan sveppir, svo fiskurinn, bananabitar þar ofan á, og svo sósan yfir allt. Inn í ofn í 20 mínútur. Með þessu höfðum ruccola með tómötunum og ristuðum furuhnetum. Ég get mælt með þessu. Og hey! Þetta er alfarið mín eigin uppskrift!

Í gærkvöldi fór í ég norðanstúlknapartý hjá Þórgunni. Ég var alveg að tryllast úr hamingju í partýinu. Hvenær var ég síðast í hóp sem kveikti í heild sinni á hugtakinu að vera alger sólborgari? Og þar sem allir leika tilfinningar sínar með ýktum svipbrigðum og látbragði sem myndi sóma sér vel í leikhúsi. Ef það er eitthvað samkenni á akureyrskum stelpur á vissum aldri þá er það þetta.

Á morgun koma Þórgunnur og Ella í mat til okkar. Annars fer helgin í að undirbúa fyrirlestur um höfundarrétt og internetið. Öll helgin. Ég ætla að vera duglegri að segja nei í framtíðinni....

Andskotans stafir, æ æ

Ætlaði að blogga en er ekki í stuði til þess lengur.

16.11.03

Ég hef verið minnt á það oftar en einu sinni síðustu daga hversu algengt það er að Íslendingar hugsi hluta af sínum hugsunum á ensku, sem og áhrif bandarískra sjónvarpsþátta á vitund Íslendinga um lög og rétt. Ég er ekki frá því að í síðarnefnda tilvikinu komi áhrifin líka fram meðal lögfræðinga.

Ég er einstaklega ánægð með ummæli sem ég las í Fréttablaðinu í morgun. Orð í tíma töluð. Í anda ofangreinds get ég upplýst að sú setning sem kom upp hugann var "The Empire strikes back".

Vinnuferðin norður var mjög fín. Ég notaði seinni part dagsins til að heilsa upp á snillinganna Elvar og Birki, pabba þeirra, og mömmu mína. Á fimmtudaginn kláraði Halla systir fyrra prófið af tveimur sem hún er að taka núna vegna löggildingar endurskoðenda og um kvöldið var haldið upp á það með því að fá sér hamborgara og fara í bíó. Við sáum Intolerable Cruelty sem var óbærilega leiðinleg. Cohen bræður með óráði. Halla systir var líkast til í þreytu- og spennufallsvímu, því hún hló hástöfum allann tímann á meðan við Maggi sátum með fýlusvip og biðum þess að ósköpin tækju enda.

Framundan er stressgeðveiki. allt of mikið af verkefnum og ýmsar félagslegar skyldur. Ég er með fiðring í maganum vegna þessa, en er harðákveðin í því ekki gera neitt vinnutengt í dag.

11.11.03

Hej.

Ein hugmynd. Hvernig væri að nota tónlist við fræga plötu sem tónlist í kvikmynd? Til dæmis Pet Sounds með Beach Boys. Í réttri röð og smíða atriðin út frá stemmingu laganna.

Á morgun fer ég í vinnuferð norður. Ég á lausa stund seinni partinn og fram á kvöld sem ég ætla að nota til að hitta ýmsa fjölskyldumeðlimi á Akureyri. Eins og venjulega hlakka ég mest til að hitta Elvar Orra og Birkir Leó, sem eru miklir snillingar, 4 og 6 ára gamlir. Annars er ég ekki jafn mikið upprifin af Akureyri núorðið og ég hef verið undanfarin ár. Miðbærinn er galtómur sem kannski stafar af því að leigugjald fyrir verslunarhúsnæði í Hafnarstræti er það sama og við Laugaveginn, sem er brjálað. Ástandið hefur áhrif á stemminguna í bænum, miðbærinn er eiginlega niðurdrepandi. Sem betur fer eru nokkur sterk kaffi- og veitingahús í miðbænum, og hin ýmsu fyrirbæri í Listagilinu, eins og Listasafn Akureyrar, sem er alveg örugglega með betri listasöfnum á landinu.

Nú skal ég útskýra hvaðan nafnið á blogginu mínu, Kóbra, kemur. Einu sinni fékk ég hugmynd að samliggjandi veitingahúsi og bar. Hugmyndin fólst í öllu frá mat, innanhúsarkitektúr, borðbúnaði, klæðnaði starfsfólks, í kynningarefni og nöfnin sjálf. Barinn átti að heita Drago og veitingahúsið .... Kóbra. Ha ha.

Nú er ég búin að kaupa í matinn, skralla heilt kíló af kartöflum og koma af stað í suðu á innan við 20 mínútum frá því að ég kom heim. Nýtt tímamet. Og Maggi var að labba inn úr dyrunum.

Ég fór með Lindu vinkonu minni í bíó í gær. Við sáum Kill Bill, sem er með betri myndum sem ég hef séð lengi. Uma Thurman er frábær í myndinni. Öll smáatriði útpæld og gengu fullkomlega upp, allt frá útlitinu á upphafsstöfunum (sem var mjög mikið "amerískur lögguþáttur frá áttunda áratugnum") að litlu rauðu blóðdropunum sem sáust tvisvar örsnöggt á tjaldinu í löngu svart/hvítu bardagaatriði. Vísanir voru allar skammlausar og einlægar, til dæmis í Twin Peaks David Lynch, mangamyndir og The Piano Jane Campion. Ofbeldið var teiknimyndalegt og næstum því sársaukalaust, og truflaði mig ekki neitt. Tónlistin hárrétt. Og það sem var kannski best eru kvenímyndirnar, sem virka sjálfsagt álíka hvetjandi fyrir stelpur og myndir um karlkynshetjur gera fyrir stráka. Ef myndin væri ekki svona ofbeldisfull væri hún tilvalið uppeldistæki. Ég sver það.

Páll Óskar í hálfgerðu dragi í sjónvarpinu. Gott hjá honum.

9.11.03

Ég er í skýjunum yfir því að hafa fengið tölvupóst um helgina frá tveimur vinum mínum sem ég kynnist í Stokkhólmi, Cristopher frá Cologne og Jordan frá LA. Það yljar mér um hjartaræturnar að þeir hafi fyrir því að setjist niður að skrifa mér bréf. Cristopher, sem við Maggi köllum Kristó, er á Íslandsflippi núna. Hann og Corinna, nýbökuð eiginkona hans, eru búin að fara á bak íslenskum hestum, horfa á Fálka og 101 Reykjavík í skipti nr. eitthvað, og Kristó er núna að lesa bókina 101 Reykjavík. Ég skrifaði honum hálfgerða lýsingu á seinni landsleik Íslands og Þýskalands í karlafótbolta, fléttaði s.s. viðbrögðum mínum við því sem var að gerast í leiknum inn í tölvupóst til hans. Eins og gefur að skilja notaði ég skírnarnöfn leikmanna, sem honum fannst mjög fyndið. Í Þýskalandi talar enginn um fótboltamenn með því að nota skírnarnöfn þeirra, nema brjálaðir aðdáendur tiltekins leikmanns. Lýsingin mín var þess vegna svolítið ga ga fyrir hann.

Jordan og Kristó eiga það sameiginlegt að búa yfir meiri félagslegri færni en gengur og gerist, en þó aðallega Jordan. Ég lærði ýmislegt af honum. Að vissu leyti öfunda ég dálítið Jordan af þeirri aðstöðu sem hann er í, en vorkenni aftur á móti Kristó. Jordan fer einu sinni í mánuði á seminör músiklögfræðinga og er að ræða alls konar spennandi hluti, en slíkur vettvangur er einfaldlega ekki til hér. Kristó er bara búinn að vera í smáverkefnum síðan hann kláraði framhaldsnámið en er að fara í tvö atvinnuviðtöl vegna tveggja starfa í Stuttgart og er bjartsýnn á að fá vinnu upp úr því í janúar. Atvinnumarkaðurinn fyrir lögfræðinga er hræðilegur í Þýskalandi, það er mikið atvinnuleysi hjá háskólamenntuðu fólki eins og öðrum. Eitthvað sem við Íslendingar ættum að hugsa um núna, en það er sko ekki sjens....

Búðir eru æðislegar. Ég átti fína helgi þar með vinnufélögunum. Jæja, nú verð ég að fara að elda. Læri í ofninum og það þarf að gera helling af dóti með því...

7.11.03

Í fyrramálið fer ég upp á Búðir. Ég er búin að hlakka mikið til, en núna veit ég eiginlega ekki út af hverju. Kannski einhver væntingapúki að stríða mér. Væntingar eru vonbrigði í bígerð.


Nú er ég búin að skila af mér greininni minni enn og aftur. Hún fékk ritrýni og ég þurfti að bregðast við athugasemdum sem komu út úr því ferli. Athugasemdirnar voru áhugaverðar og fengu mig til að hugsa um þann mun sem er á fræðilegu umhverfi hér og í Stokkhólmi. Í Stokkhólmi var afstaðan meira þannig að við ættum að segja til um hvernig ætti að túlka og setja lög, og áherslan var kannski ekkert minni á seinna atriðið. Réttarpólitíkin er mjög sterk í Svíþjóð á meðan lagatæknin er einhvern veginn mikilvægari hér, amk í upplýsingatæknirétti. Ekki það að ég vilji akkúrat út af þessari grein reyna að knýja fram einhverja aðra nálgun, ég aðlaga mig frekar að því umhverfi sem er hér í þetta skiptið, jafnvel þó það þýði að ég þurfi að sveigja aðeins frá minni eiginlegu meiningu. Ég hef einfaldlega ekki tíma í annað núna.

4.11.03

Ég er næstum því fegin að sjá snjó á götunum. Þá losna ég við samviskubitið yfir því að vera að spæna götur borgarinnar upp með nýju nagladekkjunum.

3.11.03

Tengdamamma á 20 ára afmæli í dag. Alveg satt.

Morpheus
Morpheus


?? Which Of The Greek Gods Are You ??
brought to you by Quizilla

Er ekki bannað að gefast upp?

Óvænt útspil í Survivor. Mjög svekkjandi fyrir þá sem eru komnir þetta langt að eiga á hættu að láta í lægra haldi fyrir einhverjum sem þeir voru þegar búnir að losa sig við. Og af hverju er myndin svona slæm á Skjá einum ?

Dálítið undarleg tilfinning sem ég hafði í vinnunni í dag. Ég er með hæfilegt að gera en veit af því að það er að skella holskefla af málum á mig, ýmist nýjum eða að boltinn sé að koma aftur til mín í ýmsum málum. Notaði tækifærið og fór heim upp úr klukkan 5 í dag, sem er þvílíkur lúxus.

Outcasts unnu bæði Morgan og Drake. Svínslega svekkjandi fyrir þá ættflokka. Það er eitt gott við Survivor - það er alltaf eitthvað svona sem kemur á óvart í hverri þáttaröð.


2.11.03

Jæja, þá er þessi helgi að verða búin. Hún leið skuggalega hratt. Einhvern tímann sagði ég að helgar væru hin nýju kvöld og jólin nýju helgarnar. Þá var ég að hugsa um hvað tíminn liði hratt, miðað við hvernig hann leið þegar ég var krakki. Ég fann þetta vel þessa helgi.

Ég og Maggi sáum sýningu Helgu Brögu í gærkvöldi. Hún var uppfull af klisjum, fyrirsjáanleg og ef einhver annar en Helga Braga hefði staðið á sviðinu hefði sýningin líka verið leiðinleg. Áhorfendahópurinn var forvitnilegur. Sennilega jafn miklar líkur að sjá þennan hóp á sinfóníutónleikum og að sjá fastagesti Sinfóníunnar á þessari sýningu.

Annars erum við hjónin búin að vera heilmikilir neytendur þessa helgi. Í gær keyptum við dót í stellið okkar úr Borði fyrir tvo í Kringlunni. Við sjáum fram á að geta reddað flestu nema matardiskum, sem er öllu verra. Í dag fórum við aftur í Kringluna, en það er örugglega met að við förum þangað tvo daga í röð. Maggi sagði að við værum enn og aftur að fara heim með fullan bíl af pokum úr húsi Mammons. Það eru kannski ýkjur en við keyptum ramma utan um myndina af Stokkhólmi sem við keyptum í sumar. Núna hangir myndin frammi í forstofu og hjálpar okkur við að viðhalda "heimþránni".

Ég nenni ekki að fara að vinna á morgun. Spurning um að endurskoða viðhorfin...

This page is powered by Blogger. Isn't yours?