<$BlogRSDUrl$>

18.6.03

Ég gefst upp. Nú heitir bloggið mitt bara kobra og lýsing verður með enskri útgáfu af nafninu mínu

Ég þoli það ekki að íslensku stafirnir detti reglulega út úr titli og lýsingu. Í staðinn fyrir "kóbra" kemur eitthvað bévítans rugl. Var annars að klára að leiðrétta ritgerðina mína. Á morgun fer ég upp á campus og prenta hana út og þrusa henni svo í pósthólf Peter Seipel. Ég vona að ég fái hana ekki til baka. Ég er búin að ákveða með sjálfri mér að um leið og ég fæ einkunn fyrir hana fer ég að skrifa íslensku greinina mína um sama efni. Einkunnin segir mér til um hvað ég eigi að byggja mikið á því sem ég hef nú þegar gert. Í síðasta lagi byrja ég á greininni um leið og ég byrja að vinna í ágúst. Skiladagur er 1. október og það veitir því ekki af. Ég ætti að sjálfsögðu að byrja á greininni þegar ég kem heim til Íslands aðra vikuna í júlí, í stað þess að gera þetta með fullri vinnu og um leið og ég undirbý kennslu, en ég þekki sjálfa mig nógu vel til að vita að það er voða lítill sjens á að ég byrji á greininni á meðan ég er enn í fríi. Og svo mun ég bölva sjálfri mér þegar allt er komið á fullt...

Maggi var gripinn í vinnu í morgun, sem var svo sem ágætt þar sem ég þurfti að eyða tíma í ritgerðina. Íbúðin er öll í steik eftir heimsókn pabba og eiginlega ættum við að þrífa á eftir þegar Maggi kemur heim. Kannski förum við bara aftur niður í bæ (Magga til mikillar gleði) og förum í bíó í staðinn. Bíó eða þrif, erfitt val...

Ég keypti mér Vogue á Arlanda í gær. Ég hef keypt Vogue síðan ég var 17 eða 18 ára gömul, meira að segja þegar ég bláfátækur háskólastúdent. Gekk þó ekki jafn langt og Carrie sem keypti frekar Vogue en mat fyrst þegar hún flutti til NYC. Alla vega, Reese Witherspoon prýðir forsíðuna, og ég velti því fyrir mér hvort þetta concept sé komið til að vera hjá blaðinu mínu. Leikkonur hafa prýtt forsíðuna allt frá desember heftinu 2001. Desember hefti 1998 skartaði Hillary Clinton á forsíðunni, sem þá var forsetafrú Bandaríkjanna, og hafði eins og fólk veit, gert ansi margt sem forsetafrúr höfðu ekki áður gert, eins og að blanda sér í heilbrigðispólitík. Seinna þegar Bush yngri var orðinn forseti tók Vogue viðtal við konu hans. PR fólk Bush yngri kvartaði síðar yfir því að hún hefði ekki ratað á forsíðuna eins og Hillary Clinton hafði gert. Vogue fólkið svaraði því réttilega til að þessum tveimur konum væri ekki hægt að líkja saman. Með fullri virðingu fyrir fólki sem helgar til fjölskyldu og starfsframa maka síns, þá er engan veginn hægt að setja konu Bush yngri (ég man ekki einu sinni hvað hún heitir) og á sama bás og Hillary Clinton. Ef fólk þarf að spá í af hverju þá er það annað hvort á svo allt annarri bylgjulengd en ég að það þýðir ekki einu sinni að útskýra það, eða þá er um hreina fáfræði að ræða.

17.6.03

Jæja, gott fólk. Kóbra er komin aftur. 17. júní og engin merki að sjá um þjóðhátíðardag Íslendinga hér. Það er svo sem heldur ekki haldið upp á þjóðhátíðardag Svía heldur, þannig að...

Pabbi fór heim í dag. Það var pínu stress að koma honum í gegnum hliðið enda var hann hvorki með passa né persónuskilríki af neinu tagi. Ég hef ekkert heyrt ennþá þannig að ég reikna bara með að hann sé komin langleiðina til Akureyrar núna. Við gengum frá ferð til Helsinki í dag. Ferðalagið hefst á fimmtudaginn, og við verðum í burtu í 3 daga. Það þýðir að við munum missa af midsommarsafton-herlegheitunum hér, en ég held að þetta séu svo sem ekki slæm bítti. Í næstu viku er stefnt á Gotland, svo heim að pakka, Köben í viku og svo frónið. Mig langar alls ekkert að flytja heim strax. Gott að búa í útlöndum.

Við erum bara búin að vera að slæpast í dag eftir að pabbi fór. Fórum í Kulturhuset og settumst á kaffihús þar á þakinu og færðum okkur svo á kaffihús á Drottningargötu með Óla, Stjóna og Nínu. Alltaf gaman að spjalla við þau. Á morgun er planið að klára bévítans ritgerðina og skila henni svo aftur inn til Peter Seipel. Þá er ég alveg búin með prógrammið mitt - Jibbí.

16.6.03

...virkar fínt.

Jæja, nú byrjar þetta fyrir alvöru. Spurning hvort ég mun byrja alla póstana á orðinu jæja. Ég var að koma af fundi með Magga mínum. Svaka gaman og alger orkusprauta. Fullt af yndislegu fólki. Það er aldrei hægt að hitta of mikið af því. Pabbi sefur inn í stofu og er að fara heim til Íslands í fyrramálið. Það er frábært að hann skyldi geta komið í heimsókn en hann er líka búin að vera gera okkur nett geðveik grey kallinn, enda orðinn pínu elliær. Klukkan hér í Stokkhólmi er orðin háttatími, Maggi liggur í rúminu að horfa á einhverja C mynd með Jamie Lee Curtis á TV3 og ég er að hugsa um að hoppa upp í til hans. Góða nótt heimur.

Jæja, nú ætla ég að blogga með öllum hinum. Ég er alveg dottin ofan í bloggpottinn þannig að það er um að gera að búa til mitt eigið.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?